*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 3. febrúar 2020 11:36

Íslandspóstur hættir að senda til Kína

Ekki er hægt að senda með Póstinum til Kína því flugfélög eru hætt að fljúga þangað vegna Wuhan veirunnar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ekki er hægt að senda sendingar til Kína með Póstinum en ástæðan fyrir þessu eru sú að þau flugfélög sem þjónusta Póstinn eru hætt að fljúga til landsins vegna Wuhan-veirunnar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa fjölmörg flugfélög hætt að fljúga til Kína vegna veirunnar sem smitað hefur þúsundir og lagt hundruðir í valinn. Fiskifréttir hafa jafnframt fjallað um mikil áhrif veirunnar á stærsta fiskmarkað heims.

„Því miður er þessi staða komin upp, það lá í loftinu í síðustu viku að það yrði mjög erfitt að halda uppi þjónustu til og frá Kína en við vonuðumst til þess að við myndum ekki þurfa að loka alveg fyrir póstflutninga þangað,“
segir Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Póstsins.

„Við getum í raun lítið gert þar sem okkar þjónustuaðilar eru hættir að taka við sendingum til landsins. Það er afar erfitt að segja til um hve lengi þetta ástand muni vara en við vonumst að sjálfsögðu til að það verði ekki lengi. Um leið og opnast fyrir möguleikann aftur munum við láta vita af því.“