Hagnaður Íslandspósts á síðasta ári nam rúmum 52,6 milljónum króna í fyrra. Þetta er talsverður viðsnúningur á milli ára en í hittifyrra nam tapið af rekstrinum 144,3 milljónum króna.

Fram kemur í uppgjöri Íslandspósts að tekjur voru svipaðar á milli ára, rúmir 6,7 milljarðar króna á síðasta ári samanborið við 6,5 milljarða árið 2011.

Þá kemur fram í uppgjöri Íslandspósts að rekstrarhagnaður (EBITDA) í fyrra hafi numið 485 milljónum krón

Heildareignir voru 4,9 milljarðar króna í árslok 2012 og eigið fé nam 2,5 milljörðum króna.

Verðskráin hækkuð of seint

Í tilkynningu með uppgjörinu segir m.a. að þrátt fyrir að hagnaður hafi numið 53 milljónum króna þá hafi hann ekki náð þeim markmiðum sem lagt var upp með við gerð fjárhagsáætlunar. Þetta má einkum rekja til þess að hækkun verðskrár fyrir bréf í einkarétti var ekki samþykkt að því marki sem Íslandspóstur gerði tillögu um og kom hækkunin til framkvæmda fjórum mánuðum seinna en ráð var fyrir.

Til viðbótar við þetta er gert ráð fyrir því að árituðum bréfum muni áfram fækka á næstu árum á sama tíma og rafrænar sendingar muni aukast umtalsvert.  Árituðum bréfum hefur fækkað um 37% frá árinu 2006, þegar fjöldi bréfasendinga var í hámarki, og til síðustu áramóta. Búist er við 22% fækkun bréfa næstu fimm árin.

„Með afnámi einkaréttar má gera ráð fyrir enn frekari fækkun bréfa í dreifingu Íslandspósts. Þannig má gera ráð fyrir að við afnám einkaréttar og áframhaldandi almenna fækkun bréfa að árlegar rekstrartekjur dragist saman um allt að 1.300 milljónir króna.  Til að mæta þeim samdrætti þurfa stjórnvöld annað hvort að fjármagna óbreytt þjónustustig eða að heimila Íslandspósti að hagræða og aðlaga verðskrár á móti tekjutapi.  Þar er að fjölmörgum atriðum að hyggja.  Má þar m.a nefna reglur um fjölda dreifingardaga, staðsetningu póstkassa, setningu og eftirfylgni reglna um staðsetningu og merkingu póstlúga, greiðslur fyrir óarðbæra þjónustuskyldu, reglur um verðlagningu og rýmri heimildir til að tryggja skjótari ákvarðanir varðandi staðsetningu pósthúsa og verðlagningu einkaréttarbréfa svo nokkuð sé nefnt,“ að mati Íslandspósts.