Íslandspóstur ohf. hagnaðist um 37 milljónir króna árið 2022, samanborið við 256 milljónir árið áður. Arðsemi eigin fjár er 1% en var 7,2% árið 2021. Íslandspóstur birti ársskýrslu og ársreikning í dag.

Tekjur Íslandspósts drógust saman um 3,8% á milli ára og námu 7,2 milljörðum í fyrra. Rekstrarkostnaður jókst um 3% og nam 6,7 milljörðum. Rekstrarafkoma fyrir afskriftir (EBITDA) dróst saman um helming milli ára og nam 493 milljónum.

„Árið 2022 varð samdráttur í innlendum sendingum hjá Póstinum milli ára þótt stígandi aukning sé frá árunum fyrir Covid-19,“ segir í skýrslu stjórnar. „Aðgerðir stjórnenda Póstsins til að laga rekstur að breyttum markaðsaðstæðum hafa leitt til þess að fyrirtækið er betur í stakk búið að mæta áskorunum í rekstri.“

Mynd tekin úr ársskýrslu Íslandspósts.

Stöðugildum fækkaði um 9,2% milli ára en þau voru 513 í árslok 2022 samanborið við 557 árið áður. Laun og annar starfsmannakostnaður nam 4,6 milljörðum.

Í ársreikningnum segir að í fyrra hafi dómur fallið þar sem Póstinum var gert að greiða biðlaun til fyrrverandi starfsmanna sinna sem stofnaðist til við endurskipulagningu rekstrar félagsins á fyrri árum. Kostnaður vegna endurskipulagningu rekstrar á árinu 2022 var 128 milljónir.

Eignir Íslandspósts voru bókfærðar á 6,3 milljarða í árslok 2022 og eigið fé var um 3,6 milljarðar. Í afkomutilkynningu segir að endurskipulagning á lánauppbyggingu félagsins hafi skilað árangri en vaxtaberandi skuldir lækkuðu úr 1.180 milljónum í 653 milljónir milli ára.

„Þótt verkefnin breytist og áhersla á pakkasendingar aukist er hlutverk Póstsins óbreytt, að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög með því að miðla vörum, gögnum og upplýsingum til viðskiptavina um allt land og víða veröld,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins.