Eins og áður hefur komið fram, í umfangsmikilli umfjöllun Viðskiptablaðsins um Íslandspóst, gerði Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Íslandspósti í janúar 2010 vegna hugsanlegrar misnotkunar fyrirtækisins á markaðsráðandi stöðu. Þá hefur Samkeppniseftirlitinu í gegnum árin borist fjölmargar kvartanir og ábendingar, bæði frá fyrirtækjum í samkeppni við Íslandspóst og jafnframt frá aðilum í viðskiptum við fyrirtækið, um að Íslandspóstur hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína til að byggja upp samkeppni um flutninga.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Íslandspóstur sætti rannsókn samkeppnisyfirvalda vegna sömu þátta. Enn hefur þó ekkert komið út úr þessum rannsóknum eins og svo mörgum öðrum rannsóknum sem liggja á borði Samkeppniseftirlitsins.

Rétt er þó að rifja upp að í febrúar 2010 gaf eftirlitið út bráðabirgðaákvörðun, sem er sjaldgæft, þar sem Íslandspósti var gert skylt að semja við Póstmarkaðinn ehf. um móttöku og dreifingu pósts í samræmi við gjaldskrá félagsins fyrir stórnotendur.

Póstmarkaðurinn er það sem í daglegu tali á þessum markaði er kallaður söfnunaraðili en meðal viðskiptavina félagsins eru fjölmargir aðilar, t.d. allir bankarnir. Fyrirtækið sér um söfnun á pósti og kemur honum í hendur Íslandspósts til dreifingar og telst því stórnotandi í þeim skilningi. Með því að versla við söfnunaraðila geta fyrirtæki fengið enn meiri afslátt en ella, þar sem söfnunaraðilinn nýtur kjara sem stórnotandi umfram það sem einstaka fyrirtæki gera.

Íslandspóstur reyndi lengi að hindra starfsemi Póstmarkaðarins, enda býður ríkisfyrirtækið upp á sambærilega þjónustu.

Nánar er fjallað um starfsemi og uppbygginu Íslandspósts síðustu ár í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.