Um 93 milljóna króna hagnaður varð af rekstri Íslandspósts hf. á árinu 2010. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta  (EBITDA) var um 348 milljónir króna. Heildartekjur félagsins á síðasta ári námu 6,3 milljörðum króna og drógust saman um 1% frá fyrra ári.  Heildareignir voru 5,0 milljarðar króna í árslok 2010 og eigið fé nam 2,7 milljörðum króna. Félagið greiddi 40 milljónir króna í arð til ríkissjóðs á árinu. Verulegur samdráttur hefur verið í bréfasendingum á undanförnum árum.  Frá hausti 2008 til ársloka 2010 hefur bréfum í einkarétti fækkað um 20%. Spáð er áframhaldandi magnminnkun og má gera ráð fyrir að bréfapósti muni fækka ennfrekar um allt að 25% til ársins 2015.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspósti.

Úr tilkynningu:

„Hreinn hagnaður af rekstri Íslandspósts árið 2010 var mjög í samræmi við áætlun ársins.  EBITDA hagnaður, sem er hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir afskriftir og fjármagnskostnað, var á hinn bóginn töluvert undir væntingum.  Á það einkum rætur að rekja til lægri rekstrartekna sem og hærri launakostnaðar en ráð var fyrir gert.

Á árinu 2010 var áfram unnið að endurbótum á starfsstöðvum Íslandspósts í samræmi við ákvörðun stjórnar frá árinu 2006 um uppbyggingu starfsstöðva félagsins á helstu þéttbýlisstöðum landsins.  Sú ákvörðun kom til af því, að við uppskiptingu Pósts og síma árið 1998 í tvö aðskilin félög, Íslandspóst annars vegar og Símann hins vegar, tók Íslandspóstur yfir meginhluta fasteigna Pósts og síma, en þær voru á sínum tíma byggðar með þarfir hins sameiginlega fyrirtækis í huga.  Í flestum tilvikum hentuðu þær ekki þeirri starfsemi, sem Íslandspósti var ætlað að sinna.  Því hefur markvisst verið unnið að endurbótum á starfsaðstöðu félagsins víðs vegar um land undanfarin ár, einkum í þéttbýlissveitarfélögum.  Uppbyggingaráætlunin er nú vel á veg komin og voru á árinu 2010 nýjar eða endurbættar starfsstöðvar teknar í notkun á Akureyri, í Kópavogi og í Reykjavík.

Hvern virkan dag handleika starsfmenn Íslandspósts um 350 þúsund póstsendingar til íslenskra heimila og fyrirtækja.  Gæði þjónustunnar eru með því besta sem þekkist, en það útilokar þó ekki að mistök komi upp í dreifingunni.  Árið 2006 innleiddi Íslandspóstur gæðakerfi samkvæmt gæðastaðlinum ISO 9001, en tilgangur þess var að bæta ennfrekar þjónustu fyrirtækisins.  Kerfið var vottað haustið 2007 og hefur Íslandspóstur unnið eftir því síðan.  Fjölda athugasemda hefur fækkað á undanförnum árum og þó að sérhver athugasemd frá viðskiptavinum sé einni athugasemd of mikið þá nam fjöldi þeirra aðeins 0,01% af heildarfjölda þeirra sendinga, sem Íslandspóstur dreifði á árinu 2010.

Rafræn þróun og efnahagssamdráttur hér á landi frá árinu 2008 hefur leitt til verulegs samdráttar í póstsendingum.  Frá hausti 2008 til ársloka 2010 hefur bréfum í einkarétti fækkað um 20%.  Jafnhliða tekjulækkun vegna fækkunar einkaréttarbréfa hefur íbúðum á öllu landinu fjölgað um tæp 3% á sama tíma.  Kostnaður við dreifingu hefur hækkað í samræmi við það, enda kveða reglur um bréfadreifingu á um dreifingu í öll hús á landinu alla virka daga ársins, þar sem því verður við komið.  Nær sú þjónusta nú til um 99,8% heimila og fyrirtækja á Íslandi.  Útlit er fyrir að bréfum í einkarétti fækki ennfrekar á næstu árum.  Þannig er því spáð að einkaréttarbréfum fækki um allt að 25% til ársins 2015.  Slíkri magnminnkun verður að mæta með aðgerðum á ýmsum sviðum, bæði með því að auka tekjur eftir því sem við verður komið, þar sem vænta má vaxtar, en einnig með hagræðingu í rekstri póstþjónustunnar, sem lýtur að einkarétti og alþjónustu.

Á undanförnum árum hafa starfsmenn Íslandspósts gripið til ýmissa ráðstafana, sem miðað hafa að því að byggja upp og treysta hagkvæmt afgreiðslu- og dreifingarnet fyrirtækisins í samræmi við breytt flutningamagn og búsetuþróun.  Í ársbyrjun 2011 var innleitt nýtt fyrirkomulag á útburði bréfapósts sem jafnframt er stærsta breyting, er fyrirtækið hefur gert á dreifikerfi sínu.  Undirbúningur þess verkefnis hefur staðið yfir í tæp tvö ár.  Þessi breyting mun leiða til mikillar hagræðingar í rekstri auk þess sem hún veitir færi á að bjóða upp á mismunandi þjónustustig í dreifingu bréfapósts.

Meginástæða minnkandi bréfamagns á undanförnum árum er sú að birting reikninga og yfirlita frá stórnotendum er í auknum mæli að flytjast yfir á rafrænt form.  Má segja að það sé hin nýja dreifileið skilaboða og beint framhald af þeirri efnislegu dreifingu, sem Pósturinn hefur sinnt í 230 ár.  Það liggur því beint við og er auk þess lagaskylda að Íslandspóstur taki virkan þátt í því að þróa tæknilausnir, sem auðvelda fólki og fyrirtækjum að miðla póstsendingum, hvort heldur sem er á hefðbundinn efnislegan hátt eða rafrænan;  allt eftir því hvað hverjum og einum hentar.  Nú þurfa neytendur að fara á marga staði til þess að skoða rafræna reikninga og önnur rafræn skjöl, t.d. á heimasíður ýmissa fyrirtækja og stofnana og í heimabanka.

Íslandspóstur mun á næstu mánuðum kynna nýja þjónustu, sem boðin verður undir vöruheitinu Mappan.  Allir Íslendingar munu fá aðgang að Möppunni og geta þar séð og geymt öll sín rafrænu skjöl.  Mappan mun verða bylting í dreifingu og vistun rafrænna skjala og getur leitt til verulegs hagræðis fyrir bæði sendendur og móttakendur.“