Fyrirtækið Íslandspóstur var rekið með tapi annað árið í röð. Í fyrra tapaði fyrirtækið 43 milljónum króna samanborið við 119 milljónir árið 2013. Íslandspóstur var rekinn með 53 milljóna króna hagnaði árið 2012. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspósti.

Rekstrartekjur námu tæpum 7,3 milljörðum króna í fyrra en um 6,8 milljörðum árið 2013. Rekstrartekjurnar jukust því um 7,2% milli áran. Rekstrargjöld námu 6,8 milljörðum í fyrra samanborið við ríflega 6,4 milljarða árið 2013. EBITDA nam 479 milljónum króna, sem er 37% hækkun frá árinu áður þegar EBITDA var 350 milljónir.

Handbært fé frá rekstri var 369 milljónir samanborið við 104 árið 2013. Fjárfestingarhreyfingar námu 454 milljónum króna en voru 251 milljón árið áður. Handbært fé lækkaði um 189 milljónir á árinu og var 87 milljónir í árslok.

Samkeppnishluti utan alþjónustu skilaði 240 milljónum króna í hagnað. Viðskiptamódel án alþjónustuskyldu gefur möguleika á að lækka kostnað um allt að 1.200 milljónir króna „og getur það skapað svigrúm til þess að lækka burðargjöld bréfa um fjórðung," segir í tilkynningunni.

Heildareignir Íslandspósts námu tæpum 4,9 milljörðum króna í fyrra af því eru rekstrarfjármunir langstærsti hlutinn eða 3,3 milljarðar. Skuldir fyrirtækisins námu tæpum 2,6 milljörðum samanborið við ríflega 2,3 árið 2013. Eiginfjárhlutfallið var 47% í árslok 2014.

Arðsemi eigin fjár var neikvæð um 1,8% á árinu 2014 miðað við 4,8% neikvæða arðsemi eigin fjár á árinu 2013. Veltufjárhlutfall var 1,28 í árslok 2014 og hefur lækkað úr 1,53 í árslok 2013.