Hæstiréttur dæmdi í dag Íslandssjóði hf., dótturfélag Íslandsbanka, til að greiða þrotabúi Byrs sparisjóðs 162 milljónir króna, en Héraðsdómur hafði dæmt Íslandsbanka sjálfan til að greiða þessa sömu fjárhæð.

Málið snýst um skuldabréf, sem gefin voru út af Sparisjóði Hafnarfjarðar á árunum 1998 til 2001, en SH rann síðar saman við Sparisjóð vélastjóra undir nafninu Byr. Bréfin voru á gjalddaga árið 2013, en bréf í eigu sjóðs Íslandssjóða voru keypt af Byr í febrúar og mars 2009.

Í dómi Hæstaréttar segir að skuldara sé því aðeins heimilt að greiða lán hraðar upp að um það hafi ótvírætt verið samið. Kaup Byrs á bréfunum hafi verið umfram skyldur Byrs sem viðskiptavaka bréfanna, enda hafi þau falist í innlausn allra skuldabréfanna sem sjóður Íslandssjóða hafði keypt. Ekki skipti í þessu sambandi máli þótt Byr hefði í kjölfar kaupa á slíkum skuldabréfum gtað stofnað á nýjan leik til skulda með því að selja þau öðrum.

„Bréfin höfðu ekki að geyma uppgreiðsluheimild sem veitti Byr sparisjóði kost á að greiða skuldir samkvæmt þeim fyrir gjalddaga, en eigi að síður voru þau innleyst rétt um hálfu ári eftir fall þriggja stærstu viðskiptabanka landsins og skömmu áður en Byr sparisjóður var tekin til slita. Miðuðu þessar greiðslur að því að eigandi bréfanna fengi þau að fullu greidd, sem er umfram það sem aðrir lánardrottnar Byrs sparisjóðs geta búist við.“

Einnig segir í dóminum að eignir Byrs muni ekki nægja til að efna skuldbindingar hans að fullu og sé honum því heimilt að krefjast riftunar á þessum ráðstöfunum.