Hagnaður Íslandssjóða hf., rekstrarfélags sjóða Íslandsbanka, nam 259 milljónum króna eftir skatta á síðasta ári, samanborið við 269 milljóna hagnað árið áður. Hreinar rekstrartekjur námu 1.015 milljónum samanborið við 1017 milljónir árið 2009. Rekstrargjöld námu 699 milljónum en voru 700 milljónir árið áður.

Félagið birti uppgjör sitt í dag. Heildareignir félagsins námu 2.986 milljónum króna í árslok 2010 og lækkuðu frá fyrra ári um 88 milljónir. Eigið fé í árslok var um 1,6 milljarðar króna en var 1,3 milljarðar í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfallið var 163,7% í árslok.

Alls voru 16 sjóðir í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 115.607 milljónum króna. Hagnaður sem færður var á hlutdeildarskírteini eigenda verðbréfa- og fjárfestingasjóða félagsins var um 10.547 milljónir króna árið 2010. Er það viðsnúningur frá fyrra ári þegar tap nam alls 2.124 milljónum króna.

„Mikil áhersla hefur verið lögð á viðskipta- og vöruþróun og mun því starfi verða haldið áfram á árinu 2011. Nýjum sjóðum félagsins hefur verið mjög vel tekið, en vel yfir 10 þúsund fjárfestar eiga hlutdeildarskírteini í sjóðum Íslandssjóða,“ segir ennfremur í tilkynningu um uppgjörið. Þrettán starfsmenn störfuðu hjá félaginu í lok desember. Framkvæmdastjóri félagsins er Agla Elísabet Hendriksdóttir.