Íslandssjóðir hf. er sérhæft félag á sviði eignastýringar, sem annast rekstur og stýringu fjárfestingarsjóða. Fyrirtækið er í 99,7% eigu Íslandsbanka og 0,3% eigu OIF ehf.

Samkvæmt ársreikningi félagsins, var það með 25 sjóði í rekstri og nam hrein eign þeirra rúmlega 126 milljörðum króna.

Rúmlega 9.000 fjárfestar eiga hlutdeildarskírteini í sjóðum Íslandssjóða. Um 11 starfsmenn starfa hjá félaginu og námu launagreiðslur ársins 220 milljónum króna að meðtöldum stjórnarlaunum, launum vegna undirnefnda og annara nefnda.

Samkvæmt rekstrarreikningi nam hagnaður af rekstri félagsins 532 milljónum króna árið 2015. Hagnaður ársins 2014 nam aftur á móti 228 milljónum.

Eigið fé félagsins nam 2.395 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi í lok ársins. Eiginfjárhlutfall félagsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 69,2% en lögbundið lágmark er 8%.

Á árinu var greiddur út arður til hluthafa sem nam 75% af hagnaði ársins 2014 og nam hann 171 milljón króna. Stjórn Íslandssjóða lagði einnig til að á árinu 2016 yrði greiddur arður að fjárhæð 399 milljónir króna sem samsvarar 75% af hagnaði ársins 2015.