Íslandssjóðir hf., dótturfélag Íslandsbanka sem rekur verðbréfa- og fjárfestingasjóði bankans, og VÍB, eignastýringarþjónusta bankans, eru til samans með á bilinu 400 til 500 milljarða króna í stýringu og vörslu fyrir hönd viðskiptavina. Í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins kom fram í súluriti í greininni „Heimurinn að opnast fyrir fjárfesta“ (bls. 24-25) að Íslandssjóðir væru með um 22,2 milljarða í eignastýringu, en sú fjárhæð, sem sótt var úr ársreikningi líkt og aðrar tölur, reyndist vera röng miðað við að eignir í stýringu fyrir Íslensk verðbréf, Kviku, Virðingu og GAMMA náðu yfir eignir í bæði verðbréfasjóðum og á vörslureikningum. Íslandssjóðir eru með um 100 milljarða í eignum í verðbréfasjóðum sem seldir eru til almennings. Ef eignir sem eru í fagfjárfestasjóðum fyrirtækisins eru taldar með hækkar upphæðin í 130 milljarða. Skekkjan stafaði af því, að ekki var gerður greinamunur á eignum í verðbréfasjóðum rekstrarfélaga og eignum á vörslureikningum hjá eignastýringarfyrirtækjum. Ef eignir á vörslureikningum viðskiptavina VÍB (300-350 milljarðar) eru lagðar saman við eignir Íslandssjóða fæst fjárhæð á bilinu 400-500 milljarðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .