Í framhaldi af sameiningu Íslandsbanka og Byrs hafa Íslandssjóðir hf., dótturfyrirtæki Íslandsbanka, yfirtekið rekstur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Rekstrarfélags Byrs. Er greint frá þessu í fréttatilkynningu.

Við þessa yfirtöku aukast eignir í stýringu hjá Íslandssjóðum, en yfirtakan á rekstri sjóðanna var samþykkt af Fjármálaeftirlitinu þann 14. maí og mun yfirfærslan á eignum sjóðanna eiga sér stað þann 31. maí nk.

Um er að ræða alla sjóði Rekstrarfélags Byrs: Skuldabréfasjóðinn, Alþjóða virðissjóðinn, Alþjóða vaxtarsjóðinn og Fyrirtækjasjóðinn, sem reyndar er í slitaferli.

Sjóðirnir munu starfa í óbreyttri mynd þar til annað verður ákveðið og verða því ekki aðrar breytingar að sinni.