Eigendur Íslandstryggingar hf. og Varðar Vátryggingafélags hf. hafa náð samkomulagi um að stefna að sameiningu félaganna. Nýja félagið, Vörður-Íslandstrygging hf., verður með höfuðstöðvar á Akureyri og starfsstöð í Reykjavík. Einar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Íslandstryggingar, verður framkvæmdastjóri nýja félagsins og Fylkir Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri trygginga- og tjónasviðs Varðar, verður aðstoðarframkvæmdastjóri.

Markaðshlutdeild Varðar-Íslandstryggingar er um 6% á landsvísu og starfsmenn eru nú alls 37 á Akureyri og í Reykjavík. Rekstur Varðar og Íslandstryggingar fellur vel saman í einu félagi hvað varðar uppbyggingu, markaðssvæði og áherslur í markaðsstarfi.

Íslandstrygging er yngsta vátryggingafélagið á íslenskum markaði, með starfsleyfi sem gefið var út 30. júlí 2002. Hluthafar félagsins eru starfsmenn þess, einstaklingar og lögaðilar sem áhuga hafa á vátryggingarekstri og vilja stuðla að fjölbreyttara umhverfi í vátryggingarekstri á Íslandi.

Vörður á rætur í Vélbátasamtryggingu Eyjafjarðar sem stofnuð var 1926 og sérhæfði sig í báta- og skipatryggingum. Nafninu var breytt í Vörður Vátryggingafélag árið 1996 og upp úr því fór félagið að bjóða alhliða þjónustu í fyrirtækja- og einstaklingstryggingum. VÍS keypti Vörð í nóvember 2004 af Hring hf. sem er að mestu í eigu Baugs Group hf.
Vörður-Íslandstrygging verður ,,öðruvísi vátryggingafélag" og sameinar nú krafta fyrirrennara sinna til að ná enn meiri árangri á markaðinum með öðrum áherslum í markaðssókn og vátryggingastarfsemi en keppinautarnir eru þekktir fyrir.

Íslandstrygging er með samning við allar helstu vátryggingamiðlanir á Íslandi um miðlun á vátryggingum félagsins og gert er ráð fyrir að nýja félagið haldi sínu striki að þessu leyti segir í tilkynningu félagsins.

Vörður-Íslandstrygging tekur við samningi Íslandstryggingar við Félag íslenskra bifreiðaeigenda um sölu vátrygginga til félagsmanna FÍB og samningi við Landssamband smábátaeigenda um sölu vátrygginga til félagsmanna þess.

Sameiningin á sér skamman aðdraganda. Könnunarviðræður áttu sér stað fyrir jól að frumkvæði Íslandstryggingar. Raunverulegar sameiningarviðræður áttu sér ekki stað fyrr en nú í janúar og leiddu fljótlega til þeirrar niðurstöðu sem kynnt var starfsmönnum beggja félaga í morgun.

Áreiðanleikakönnun á félögunum stendur nú yfir og í kjölfar hennar verða endanleg skiptahlutföll við samruna ákveðin. Óskað verður eftir tilskyldum leyfum frá opinberum aðilum vegna sameiningar félaganna.