Í gær hóf stofnunin Institute for Liberty sérstaka Íslandsvakt.

Stofnunin lítur á sig sem sérlega verndara réttinda einstaklinga til að eltast við bandaríska drauminn og segjast þeir vilja koma á framfæri sjónarmiðum lítilla fyrirtækja og vinnandi fjölskyldna inní stefnumarkandi umræður.

Miðar að því að verja hagsmuni aflandskrónueigenda

Íslandsvaktin virðist þó helst miða að því að verja hagsmuni aflandskrónueigenda, en forseti samtakanna, Andrew Langer segir í yfirlýsingu:

„Frelsisstofnunin hefur fylgst með Íslandi á vegferð sinni til uppbyggingar síðan hrunið var 2008, og hefur stofnunin sífellt auknar áhyggjur af nýtilkominni verndarstefnu í efnahagsmálum líkt og mismunun gagnvart þeim sem eiga krónur en búa ekki í landinu.“

Sögð ógna eignaréttindum erlendra fjárfesta

Ætlar stofnunin að fylgjast með og varpa ljósi á andlýðræðislega stefnu Alþingis, sem jafnframt er andstæð fríverslun, því hún gæti ógnað eignaréttindum erlendra fjárfesta í íslenskum krónum.

„Eigendur aflandskróna eru meðal annars margir bandarískir fjárfestar, sem margir þjónusta lífeyrissöfnunarsjóði, líkt og þeirra sem eiga 401k söfnunarreikninga, sem og stofnanafjárfestum líkt og fyrirtækja og opinberra lífeyrissjóða, stofnana og velferðarsjóða,“ segir í yfirlýsingu á síðu stofnunarinnar.

Segja fjárfesta sýnt vilja til að styðja við uppbyggingu

Segir stofnunin að þrátt fyrir að fjárfestar hafi sýnt vilja til að styðja við uppbyggingu Íslands og hafi boðist margsinnis til að ganga að samningum, þá hafi íslenska ríkisstjórnin neitað að veita nokkuð annað heldur en „samþykkið eða sleppið því valmöguleika.“

Segja þeir mismununina gagnvart erlendum fjárfestum vera til vansa og gæti haft áhrif á milljónir Bandaríkjamanna sem eigi lífeyrissöfnunarsjóði líkt og þá sem starfa samkvæmt svokölluðum 401k lögum. Veita þau almenningi heimild til að safna ákveðinni upphæð á ári inn á séreignasparnaðarreikninga sem eru þá skattfrjálsir þangað til féð er tekið út.

Einangrun hótað

„Þegar íslenska þingið, Alþingi, kemur saman vegna sérstaks sumarþings 15. ágúst, munu aðgerðir þeirra sýna fram á hvort eyþjóðin hyggist koma sér á ný inn á alþjóðlega frjálsa markaði, eða ganga lengra í átt að einangrun með því að koma á nýjum, dýrum, misskilinni stefnu sem haldi aftur af fjárfestingum og efnahagsvexti.“