Breski auðjöfurinn Mike Ashley hefur selt 4% hlut í bresku sportvörukeðjunni Sports Direct. Hluturinn jafngildir 25 milljón bréfum í versluninni og fékk hann fyrir bréfin 100 milljónir punda , jafnvirði 19 milljarða íslenskra króna. Eftir viðskiptin á hann eftir 64% hlut í Sports Direct, samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins, BBC , af málinu.

Tengist mörgum Íslendingum

Mike Ashley er með auðugustu mönnum Bretlands og byggir veldi hans á versluninni, sem hann stofnaði fyrir um þrjátíu árum. Verslanirnar eru tæplega 400 talsins. Sports Direct á auk þessa fjölda annarra fyrirtækja í smásölugeiranum. Hann er auk þess eigandi breskua úrvalsdeildarliðsins Newcastle. Ashley hefur verið viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannesson og einstaklinga honum tengdum um árabil. Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson , sonur Ingibjargar Pálmadóttur, konu Jóns Ásgeirs, opnaði verslun undir merkjum Sports Direct í Kópavogi í fyrrasumar.

En tengingarnar við íslenska fjárfesta eru fleiri því Sports Direct keypti um 20 verslanir og birgðir úr þrotabúi JJB Sports þegar félagið fór í þrot í fyrrahaust. JJB Sports var fyrir hrun að stórum hluta í eigu Exista. Bakkavararbræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir voru helstu hluthafar Exista. Þessu til viðbótar á Mike Ashley íþróttafréttavefinn sportsdirectnews.com, sem Jón Ásgeir fékk Óskar Hrafn Þorvaldsson , fyrrverandi fréttastjóra fréttastofu Stöðvar 2, til að stýra í fyrra.

Í ágúst árið 2007 var uppi orðrómur um það að Jón Ásgeir væri að leggja ráðin um kaup á Newcastle ásamt Pálma Haraldssyni, fleiri fjárfestum og Alan Shearer, fyrrverandi leikmanni úrvalsdeildarliðsins. Þeim fregnum var svo vísað á bug. Orðrómur hefur jafnframt verið á kreiki um að Ashley ætli hafi leitað eftir því að kaupa bresku stórverslunina House of Fraser ýmist að öllu leyti eða að hluta. Baugur Group og tengdir fjárfestar keyptu verslunina með manni og mús í febrúar árið 2006. Þremur árum síðar gekk skilanefnd Landsbankans að veðum hjá Baugi og eignaðist við það 33% hlut í House of Fraser.