Líklegt er að stjórnvöld í Slóveníu verði næst í röðinni til að fara bónleið til Brussel og óska eftir neyðarláni til að forða landinu frá þjóðargjaldþroti. Að minnsta kosti ætti að flokka landið til þeirra evruríkja sem verst standa. Þetta er mat danska hagfræðingsins og Íslandsvinarins Lars Christensen, forstöðumanns hjá Danske Bank. Hann skrifar grein um málið á bloggsíðu sinni, The Market Monetarist , og færir þar rök fyrir máli sínu.

Christensen bendir m.a. á að augu flestra hafi einblínt á stöðu svokallaðra PIIGS-landa, þ.e. Portúgal, Ítalíu, Írland, Grikkland og Spán. Það hafi þess vegna komið á óvart þegar Kýpverjar þurftu á neyðarbjörgun að halda. Nú megi búast við því að annað land lendi í svipaðri stöðu. Það verði hvorki Spánn né Grikkland heldur Slóvenía, sem með réttu eigi að flokka með PIIGS-löndunum.

Hann bendir sömuleiðis á að staða Kýpverja sé þrátt fyrir allt ágæt og hagkerfið ekki látið á sjá. Þvert á móti séu það nokkrir bankar sem hafi lánað Grikkjum sem sligi landið. Þessu er er ekki að skipta í Slóveníu en bankar landsins sem eru í eigu ríkisins hafi lánað mikið til ríkisfyrirtækja sem standi illa. Þetta getur valdið Slóvenum meiri vandræðum en Kýpverjar lentu í, að mati Christensen.