Ríkasti maður Bretlands, Sir Jim Ratcliffe, vill eignast enska knattspyrnufélagið Chelsea FC. Eignir hans eru metnar á 12,1 milljarða punda, eða sem nemur 2 þúsund milljörðum króna, sem setur hann í sæti 121 á lista Forbes yfir ríkasta fólk heims.

Kauptilboð Ratcliffe nemur 4,25 milljörðum punda, eða sem nemur 700 milljörðum króna. Af þeirri upphæð renna 2,5 milljarðar punda til stuðnings fórnarlamba stríðsins í Úkraínu, en 1,75 milljörðum punda fjárfest í Chelsea FC á næstu 10 árum, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá honum sjálfum. Til þessa hefur bandaríski fjárfestingarbankinn Raine Group, sem stýrir söluferlinu, gert kröfu um að mögulegir kaupendur leggi til hliðar ákveðna fjárhæð til styrktar fórnarlamba í stríðinu auk þess að fjárfesta ákveðinni upphæð í leikvang félagsins.

„Þetta er breskt kauptilboð á bresku félagi,“ segir Ratcliffe í yfirlýsingu í gegnum félag sitt Ineos. Í yfirlýsingunni segist Ratcliffe ætla að fjárfesta í Stamford Bridge, leikvangi Chelsea, í karla- og kvennaliði félagsins og í akademíunni. „ Við trúum því að London eigi að vera með félag sem endurspeglar stærð borgarinnar. Félag sem er haldið á sama stalli og Real Madrid, Barcelona og Bayern Munich.“

Ratcliffe bætir við að tilgangur hans og félags síns með kaupum á Chelsea sé ekki að hagnast, félagið hagnist vel af sinni kjarnastarfsemi.

Ratcliffe virðist jafnframt vera mikill fótboltaáhugamaður. Hann á meðal annars knattspyrnuliðin Laussanne í Sviss og Nice í Frakklandi. Auk þess er hann ársmiðahafi á Stamford Bridge, leikvangi Chelsea. Þó segist hann sjálfur hafa verið aðdáandi enska félagsins Manchester United frá unga aldri.

Sjá einnig: Erlendir auðmenn á Íslandi

Ratcliffe hefur verið stórtækur í jarðakaupum á Norðausturlandi og hefur þá litið helst til jarða sem eiga bakkametra að gjöfulum veiðiám. Má þar nefna Hafralónsá í Þistilfirði og Selá, Hofsá og Vesturdalsá í Vopnafirði. Í síðastnefndu ánni fær nú Ratcliffe einn að veiða en hann kaupir öll veiðileyfin í ánni fyrir sig. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hve margar jarðir hann á á svæðinu en áætlað hefur verið að hann eigi um tvo tugi, ýmist að hluta eða heild.

Viðskiptablaðið greindi frá því í fyrra að félagið Six Rivers Project, sem Ratcliffe stendur að baki, muni fjárfesta fyrir 4 milljarða króna í uppbyggingu við veiðiár á Norðausturlandi. Þá verði ný veiðihús byggð við Miðfjarðará í Bakkafirði, Hofsá og í Vesturárdal, auk viðbyggingar við veiðihús Six Rivers Project við Selá í Vopnafirði.

Boehly eða Ratcliffe?

Ratcliffe kemur nokkuð seint í umræðuna, en fyrirfram var talið að nýr eigandi félagsins yrði kynntur á næstu dögum. Samkvæmt fjölmiðlum í Bretlandi er líklega einungis einn annar fjárfestingarhópur sem kemur til greina sem nýr eigandi Chelsea. Það er hópur leiddur af Todd Boehly. Matt Law, blaðamaður hjá The Telegraph, heldur því jafnframt fram að hópur Boehly hafi nú þegar verið valinn sem nýr eigandi Chelsea.

Þannig greinir Wall Street Journal frá því í dag að Boehly hafi borið sigur úr býtum gegn tveimur bandarískum fjárfestingarhópum. Annars vegar hópi leiddan af Stephen Pagliuca, meðeiganda körfuboltafélagsins Boston Celtics og meðformann fjárfestingarfélagsins Bain Capital og hins vegar hópi leiddan af Josh Harris og David Blitzer, meðeigendum körfuboltafélagsins Philadelphia 76ers og fótboltafélagsins Crystal Palace.

Boehly, sem er eigandi að hluta af bandaríska hafnaboltafélaginu LA Dodgers og körfuboltafélaginu LA Lakers, reyndi að kaupa Chelsea árið 2019. Þá bauð hann 2,2 milljarða punda í félagið en tilboðinu var hafnað. Eignir hans eru metnar á 3,6 milljarða punda, eða sem nemur 600 milljörðum króna, sem setur hann í sæti 628 á lista Forbes yfir ríkasta fólk heims.

Eignarhald til 2032

Samkvæmt Sky News eru mögulegir kaupendur beðnir um að tryggja það að þeir muni ekki selja ráðandi hlut í félaginu næstu 10 ár í hið minnsta, eða til ársins 2032. Krafa Raine Group er talin vera fordæmalaus í söluferli á fótboltafélagi, en bankinn hefur lagt fram þónokkrar kröfur á hendur mögulegra kaupenda sem varða framtíðarstjórn félagsins og ákvarðanatökur.

Krafan um að selja ekki í félaginu næstu 10 árin tekur aðeins til ráðandi hluts hjá hverjum og einum fjárfestingarhóp. Þannig gætu nýir eigendur gefið út nýja hluti í Chelsea seinna meir. Í grein Sky segir að kaupanda yrði lagalega gert skylt að halda í hlut sinn næstu 10 árin.