Það gekk á ýmsu í aðdraganda síðustu Iceland Airwaves hátíðar. Lykilhljómsveit hætti við og fellibylurinn Sandý setti strik í reikninginn fyrir aðra. Hátíðargestir virtust þó ekki láta slíkt á sig fá og fékk hátíðin góða dóma, bæði í innlendum og erlendum fjölmiðlum. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri hátíðarinnar tekur undir þá niðurstöðu. „Tónlistarlega séð var þessi hátíð alveg frábær,“ segir Grímur. „Íslensku hljómsveitirnar stóðu upp úr og voru sterkar. Erlendu gestirnir eru líka fyrst og fremst hér til að sjá þær. Heilt á litið var stemningin og gleðin, þrátt fyrir óveður og annað, alveg eins og hún á að vera á Iceland Airwaves.“

Grímur Atlason fjallaði ítarlega um sögu og gengi Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar í viðtali við Áramótatímarit Viðskiptablaðsins. Talið barst meðal annars að fjölda erlendra gesta á hátíðinni sem aldrei hefur verið meiri en nú síðast.

„Það verður erfitt að slá þetta met,“ segir Grímur, „af því að Íslendingar kaupa nú væntanlega fyrr miða á hátíðina.“ Blaðamaður grípur orðin á lofti og spyr um alla Íslendingana sem ekki komust að að þessu sinni. „Íslendingar voru óvenju seinir fyrir í ár,“ segir Grímur. Hann segir þó ekki koma til greina að halda eftir miðum fyrir íslenska gesti. „Það væri auðvitað gaman að hafa svona helmingshlutfall enda er þetta alþjóðleg hátíð. Svo er auðvitað heilmikið um að vera utan dagskrár svo það eru fleiri Íslendingar í kringum hátíðina en bara þeir sem kaupa miða,“ segir Grímur.

Viðtalið við Grím má í heild sinni má finna í Áramótatímariti Viðskiptablaðsins.