*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 21. desember 2007 09:06

Íslendingar 312.872, óvenjumikil fólksfjölgun undanfarin þrjú ár

Ritstjórn

Samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár voru landsmenn 312.872 hinn 1. desember síðastliðinn samanborið við 307.261 ári áður. Undanfarin þrjú ár hefur fólksfjölgun verið óvenju hröð en nú dregur nokkuð úr henni. Árleg fólksfjölgun er nú 1,8% samanborið við 2,6% frá 1. desember 2005 til 1. desember 2006 og 2,1% árið þar á undan. Í frétt á vef Hagstofu Íslands segir að þótt nú dragi úr fólksfjölgun er hún mikil hvort sem litið er til annarra þjóða eða til fyrri tímabila hérlendis. Jafn mikil fólksfjölgun hefur ekki orðið hér á landi frá því um miðbik sjöunda áratugarins og í engu öðru Evrópulandi er fólksfjölgun jafn mikil og hér. Fólksfjölgun í álfunni hefur verið um 0,2% og í einungis örfáum löndum Evrópu er árleg fólksfjölgun meiri en 1%.  Náttúruleg fjölgun og flutningsjöfnuður Fram undir 1980 var mikil fólksfjölgun hérlendis nær eingöngu rakin til mikillar náttúrulegrar fjölgunar (fjölda fæddra umfram dána). Lífslíkur jukust alla 20. öldina og í samanburði við önnur Evrópulönd hefur fæðingartíðni hér á landi verið há. Við upphaf sjöunda áratugarins gat hver kona vænst þess að eignast fjögur börn á lífsleiðinni. Í fáum ríkjum á vesturlöndum varð fæðingartíðni jafn há á síðari hluta 20. aldar og hér. Þótt fæðingartíðni sé enn há í evrópsku samhengi hefur uppsafnað frjósemishlutfall lækkað á undanförnum ártugum. Um þessar mundir eignast konur hér á landi rúmlega tvö börn um ævina. Mynd 1 sýnir að náttúruleg fólksfjölgun var mest hér á landi frá lokum seinni heimsstyrjaldar til miðs sjöunda áratugarins. Allan þann tíma var flutningsjöfnuður lágur og allmörg ár þessa tímabils voru þeir sem fluttust af landi brott fleiri en þeir sem fluttu til landsins.   

Þótt náttúruleg fólksfjölgun eigi enn talsverðan þátt í fjölgun íbúa hér á landi verður fólksfjölgun undanfarin ár öðru fremur rakin til mikils aðstreymis fólks frá útlöndum. Frá 1. desember í fyrra til 1. desember í ár var fjöldi aðfluttra umfram brotflutta rúmlega 3.000. Á sama tíma voru fæddir umfram dána tæplega 2.600 talsins. Náttúruleg fólksfjölgun á árinu nam tæpu 0,8% en tíðni flutningsjöfnuðar var 1,1%. Talsvert hefur dregið úr flutningsjöfnuði frá því í fyrra en þá var tíðni flutningsjöfnuðar 1,8%. Ef litið er til flutninga til og frá landinu einstaka mánuði ársins 2007 sést að talsvert hefur dregið úr flutningum til landsins frá því í september. Þetta á þó einungis við um karla. Undanfarin ár hafa karlar verið mun fleiri en konur í flutningum til landsins enda hafa virkjana- og stóriðjuframkvæmdir og byggingariðnaður einkum höfðað til karla. Í fréttum frá Hagstofunni hefur á undanförnum misserum verið gerð ítarleg grein fyrir þeim kynjahalla sem verið hefur í flutningum til og frá landinu. Til ársins 2004 voru konur yfirleitt fleiri en karlar í flutningum til landsins en frá árinu 2004 hafa 2-3 sinnum fleiri karlar en konur flutt til landsins frá útlöndum. Eins og sést á mynd 2 hafa litlar breytingar orðið á fjölda kvenna sem flytjast til landsins og nú þegar flutningsjöfnuður meðal karla er neikvæður er flutningsjöfnuðu meðal kvenna álíka hár og meðaltal undangengins árs.   

Erlendum ríkisborgurum fjölgar Eins og fram hefur komið í fréttum frá Hagstofu Íslands á undanförnum tveimur árum var meiri hluti þeirra einstaklinga sem flutti til landsins erlendir ríkisborgarar. Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár. Hlutfall þeirra af íbúum í heild er nú 6,8% samanborið við 6% fyrir ári. Langflestir erlendir ríkisborgarar sem búsettir eru á Íslandi eru með pólskt ríkisfang (8.350), í kjölfar þeirra fylgja Litháar (1.316), Þjóðverjar (980), Danir (903), Portúgalar (886) og einstaklingar með ríkisfang á Filippseyjum (771). Fjöldi einstaklinga með ríkisfang á Norðurlöndum hefur lítið breyst undanfarna áratugi en flestum öðrum þjóðernum hefur fjölgað til muna.