Íslendingar verða 436.500 talsins árið 2060 ef mannfjöldaspá Hagstofunnar gengur eftir. Er sú spá svokölluð miðspá mannfjöldaspárinnar. Samkvæmt lágspánni verða íbúar 386.500 og háspánni 493.900. Ólíkar forsendur um fjölda barna á ævi hverrar konu og búferlaflutningar eru spánum til grundvallar. Í dag eru Íslendingar 317.500

Neikvæðir búferlaflutningar til 2012

Í spá Hagstofunnar er gert ráð fyrir áframhaldandi fólksfækkun á árinu 2011 en fólksfjölgun frá og með næsta ári, þrátt fyrir neikvæðan flutningsjöfnuð á árunum 2011 og 2012.

„Í miðspá og háspá er gert ráð fyrir náttúrlegri fólksfjölgun út spátímabilið. Með náttúrlegri fólksfjölgun er átt við fleiri fædda en dána. Samkvæmt lágspánni verða dánir hins vegar fleiri en fæddir frá og með árinu 2052. Þá yrði fjölgun íbúa eingöngu rakin til jákvæðs flutningsjafnaðar,“ segir í tilkynningu Hagstofunnar.

„Meðalævi mun halda áfram að lengjast bæði hjá körlum og konum. Karlar geta vænst þess að verða 79,7 ára nú en meðalævilengd þeirra verður 85 ár í lok spátímabilsins. Konur geta vænst þess að verða 83,3 ára en spáð er að sá aldur verði kominn í 87,1 ár í lok spátímabilsins.“