Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, var tekin tali í Viðskiptablaðinu í vikunni.

Ég upplifi Íslendinga stundum með mjög stutt „athyglisspan“. Ef eitthvað skilar ekki árangri strax þá höfum við tilhneigingu til að sleppa því.

„Íslendingar eru að sumu leyti mjög óþolinmóðir. Við erum vön því að fá alla okkar þjónustu strax. Að geta keyrt í tíu mínútur með barnið í dagsvistun eða skóla og svo þaðan í vinnuna á korter til tuttugu mínútum er eitthvað sem við erum vön og verðum alveg brjáluð yfir smá umferðarteppu eða ef við fáum ekki bílastæði beint fyrir utan áfangastaðinn. Bankaþjónusta og flest opinber þjónusta gengur mjög hratt fyrir sig í alþjóðlegum samanburði. Hún þarf auðvitað að halda áfram að þróast en hún er virkilega góð,“ segir Ásta.

„Við mættum vera skipulagðari, horfa lengra fram í tímann og hafa skýra sýn á hvert við erum að halda. En það er einmitt það sem ég held oft að vanti – sýnina á hvar Ísland ætlar að vera eftir tíu eða tuttugu ár, og vera meðvituð um hana,“ segir Ásta.

Sama umræðan aftur og aftur

Inn í þetta spila svo þær öfgakenndu hagsveiflur sem hafa einkennt íslenskt efnahagslíf alla síðustu öld og fram á okkar daga. „Við höfum farið í gegnum verðbólgur og hrun, höft og annað – þú þarft ekki að gera annað en að horfa á 100 ára sögu Viðskiptaráðs – en þar hafa sömu málefnin verið tekin fyrir aftur og aftur. Þetta er ansi magnað. Við bara gerum ráð fyrir því að staðan í dag verði ekki sú sama eftir fimm eða tíu ár. Í dag njótum við góðæris, en þegar í harðbakkann slær drögum við saman seglin. Ef við ætlum í meira stöðugleikamynstur þá getum við horft til þjóðanna í kringum okkur, þar sem til dæmis launahækkanir eru eitt, þrjú til fjögur prósent að jafnaði – en ekki stanslausir sprettir hjá einum hópi sem sá næsti eltir.

Og jafnvel þótt við skiljum, í tengslum við umræðuna um kjararáð, að einstaklingar sem standi í forsvari fyrir þjóðina þurfi að fá góð laun þá horfir fólk á þeirra prósentuhækkanir og finnst það líka eiga að fá sömu hækkanir. Og maður skilur það alveg,“ segir Ásta. Í fjármálastefnu ríkisins segir hún varasamt að gert sé ráð fyrir allt of bjartri mynd.

„Efnahagsspáin sem fjármálastefnan byggir á er afar bjartsýn og gerir ráð fyrir meiri hagvexti en í fyrri fjármálastefnu ríkisins. Sú launaþróun sem gert er ráð fyrir felur í sér að kaupmáttur íslenskra launa erlendis mun vaxa um 17% næstu fimm árin, eftir að hafa vaxið um 86% síðustu fimm ár eða samtals um 188% á einum áratug. Þetta hlýtur að teljast varasamt. Kaupmáttarhækkun í löndunum í kringum okkur hleypur yfirleitt á 1-2% á ári. Þessir sprettir geta ekki talist eðlilegir. Við verðum að læra af verðbólgumyndun og þenslu síðastliðinna áratuga og ekki treysta á áframhaldandi „síldarævintýri“, í dag t.d. með vaxandi tekjum ferðaþjónustunnar,“ segir Ásta.

Hvernig sérðu fyrir þér starfsemi Viðskiptaráðs á næstu fimm til tíu árum? Í hvaða átt vilt þú taka það?

„Heimurinn er að breytast og þess vegna er kannski breyttur tónn hjá Viðskiptaráði. Það eru að verða straumhvörf, meðal annars með þessum miklu tæknibreytingum. Tæknin sjálf er að endurskrifa leikreglur viðskiptalífsins. Ekkert er í dag eins og það var. Ef þú horfir á 500 stærstu fyrirtækin á Standard & Poor´s listanum þá var meðallíftími fyrirtækja á listanum 60 ár árið 1960 og mörg þeirra urðu 100 ára. Í dag er meðaltalið varla 20 ár því hraðinn og breytingarnar eru svo miklar.  Við erum að lenda í þessari alþjóðlegu samkeppni. Viðskiptaráð er að huga að því hvernig við getum stutt fyrirtækin í landinu og stjórnvöld í því hvernig eigi að búa til umhverfi þar sem fyrirtæki, og þá sérstaklega frumkvöðlastarfsemi bæði innan rótgróinna fyrirtækja og í nýjum fyrirtækjum, geti blómstrað. Hér tel ég að ríki og einkageiri þurfi að vinna betur saman,“ segir Ásta.

„Sem stendur erum við í miðju góðærinu og allt gengur vel. En við erum samt ekki að taka þá áhættu að fjárfesta í nýsköpun að neinu marki,“ segir Ásta. „Við höfum ekki aflétt þaki á endurgreiðslu þróunarkostnaðar og erum því að þrýsta á ráðherra að gera það,“ segir Ásta. „Við erum ekki að huga að þessu frumkvöðlaumhverfi. Ætlum við að gera það þegar í harðbakkann slær? Treystum við okkur til þess á sama tíma og við förum að halda að okkur höndum og jafnvel skera niður? Þetta á bæði við um ríki og fyrirtæki,“ segir Ásta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .