Í netúgáfu sænska viðskiptablaðsins Dagens Industri er fjallað um kaup íslenskra fjárfesta í sænska fjármálafyrirtækinu Skandia. Þar kemur fram að Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir hefur verið að kaupa þar hluti um nokkra mánaða skeið og er nú komin með 3% hlut í gegnum Burðarás og Landsbankann. Áður hafði komið fram að Kaupthing banki var kominn með 2,5% sem bankinn hafði flaggað. Í DI eru leiddar að því líkur að íslensku fjárfestarnir bítist um Skandia.

Kaup Björgólfs eru líklega upp á um einn milljarða sænskra króna eða um 10 milljarða króna. DI telur að kaupin hafi átt sér stað síðasta árið. hafa kaup Burðarás og Landsbankans meðal annars farið í gegnum Carnegie verðbréfafyrirtækið en þar settist Björgólfur í stjórn í gær.

Í grein DI er gefið í skyn að mikil samkeppni ríki á milli íslensku fjármálafyrirtækjanna sem hafa barist hatramri baráttu sína á milli undanfarið. Er talað um að báðum félögum geti hentað að skipta Skandia upp og taka deildir fyrirtækisins undir sína starfsemi.

Í greininni er einnig vakin athygli á því að Burðarás eigi nú 20% eða ráðandi hlut í Carnegie og hafi þar að auki fjárfest í Scribona, Micronic og Intrum Justitia. Haft er eftir Friðrik Jóhanssyni, framkvæmdastjóra Burðarás, að félagið hafi yrir að ráða 14 milljörðum króna og það leiti nú fjárfestingakosta á Norðurlöndum.