Íslenskir neytendur eru vongóðir og bjartsýnir í upphafi nýs árs ef marka má væntingavísitölu Capacent Gallup sem birt var nú í morgun. Vísitalan sem mælir væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins hækkaði um 13,2 stig frá fyrri mánuði og stendur nú í 61,5 stigum.

Greining Íslandsbanka fjallar um væntingavísitöluna í Morgunkorni í dag. Skala vísitölunnar er frá 0 til 200, við 100 stig eru jafn margir bjartsýnir og svartsýnir.

Segir að svo virðist vera að svartsýniskastið sem landinn tók síðastliðið haust sé nú liðið hjá. Vísitalan er nú komin á svipaðan stað og um mitt síðasta sumara. „Þegar að hausta tók fór svo að fjara undan bjartsýninni á nýjan leik og fór vísitalan niður í 32 stig í október.Núna virðast landsmenn hins vegar vera að jafna sig og fara tiltölulega bjartsýnir inn í nýtt ár.“

„Á síðasta ári mældist vísitalan að meðaltali 53 stig og er því ljóst að landinn er heldur bjartsýnni nú en hann var að jafnaði á síðasta ári. Þá eru landsmenn einnig mun bjartsýnni nú heldur í upphafi síðasta árs en fyrir ári síðan var vísitalan 37,1 stig. Eins og kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins, og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir. Tæplega 3 ár eru síðan að vísitalan fór yfir 100 stig en það var í febrúar 2008 þegar hún var 102,2 stig. Sögulegu lágmarki náði vísitalan í janúar 2009 þegar hún fór niður í 19,5 stig.

Vonbetri um framtíðina
Allar undirvísitölur væntingavísitölunnar hækkuðu á milli desember og janúar. Mest hækkaði undirvísitalan sem mælir væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði, en sú vísitalan hækkaði um 19,5 stig og er nú 91,8 stig. Ljóst er því að landsmenn eru nú vonbetri um ástandið í efnahags- og atvinnulífinu framundan heldur en þeir voru að jafnaði á síðast ári en vísitalan var að meðaltali 81 stig á síðasta ári. Þá hækkaði vísitalan sem mælir mat á efnahagslífinu um 16 stig frá fyrri mánuði og vísitalan sem mælir mat á atvinnuástandinu hækkaði um 14 stig. Mat á núverandi ástandi hækkaði um 3,5 stig og stendur sú vísitala nú í 15,9 stigum. Vísitalan fyrir núverandi ástand var að meðaltali 11 stig á síðasta ári þannig að landsmenn eru í heildina litið ánægðari með ástandið nú heldur en þeir voru að jafnaði á síðasta ári.“