Norræna ferðaskrifstofan Nazar hefur fyrir þónokkru síðan hafið sölu á ferðum sínum frá Íslandi til Tyrklands næsta sumar og segir Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar, í samtali við Túrista að viðtökurnar hafi verið mjög góðar. Nú þegar séu 250 farþegar búnir að bóka ferðir næsta sumar, en til samanburðar fóru nærri 2.500 Íslendingar í ferðir félagsins síðasta sumar.

Kemal segir jafnframt að nær allir þeir sem þegar hafi bókað séu farþegar frá síðasta sumri og að fjölskyldufólk sé fyrst á ferðinni. Nazar starfar á öllum Norðurlöndunum og segir Kemal að hlutfallslega seljist fleiri ferðir hér á landi en í hinum löndunum. Forráðamenn félagsins stefna á að tvöfalda umsvif sín hér á landi næsta sumar og ætla að selja um 5.000 sólarlandaferðir.