Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður og formannsframbjóðandi Sjálfstæðisflokksins, segir að Íslendingar eigi ekkert erindi inn í Evrópusambandið að öllu óbreyttu.

„Ástæðurnar eru tiltölulega einfaldar. Þetta snýst um fullveldið, yfirráð auðlinda okkar og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir sömuleiðis engan annan kost í boði en að nota krónuna. „Það er nokkuð ljóst að við verðum að nota krónuna, okkar eigin gjaldmiðil, til að vinna okkur út úr efnhagsþrengingunum. Engu að síður ber að hafa í huga að það getur vel verið að í ljósi þessa mikla umróts sem er í fjármálakerfum veraldarinnar skapist einhverjir nýir kostir varðandi gjaldmiðilinn sem hingað til hafa ekki boðist Íslendingum. Það kann því vel að vera að þegar um hægist eigum við einverja aðra kosti sem við höfum ekki í dag. En meðan það liggur ekki fyrir, stöndum við á okkar eigin fótum, og nýtum þær bjargir sem okkur bjóðast. "

Kristján Þór vísar því á bug í samtali við Viðskiptablaðið að hann hafi verið að beina spjótum sínum að mótframbjóðanda sínum Bjarna Benediktssyni þegar hann talaði um að hann hefði ekki fengið pólitískan frama eða völd á silfurfati.

„Ég er ekki að gefa neitt í skyn um mótframbjóðanda minn. Alls ekki. Ég er ekki vanur að tala í hálfkveðnum vísum. Ég er einungis að staðhæfa að ég hef komist til áhrifa í stjórnmálum vegna verka minna fyrst og fremst en einnig vegna góðs samstarfs við fjölda fólks. Ég hef lagt verk mín og störf í dóm flokkssystkina minna og almennra kjósenda og hef uppskorið samkvæmt því."

Nánar er rætt við Kristján Þór Júlíusson í Viðskiptablaðinu sem kom út í kvöld.