*

föstudagur, 6. desember 2019
Innlent 11. október 2016 11:21

Íslendingar eignast þriðjung í Nova

Íslenskir fjárfestar munu leggja til og eignast þriðjung af hlutafé Nova í kjölfar sölu Björgólfs Thor, sem vildi erlent fjármagn í félagið.

Ritstjórn
Lív Bergþórsdóttir, forstjóri Nova og Jóakim Hlynur Reynisson, framkvæmdastjóri tæknisviðs.
Haraldur Guðjónsson

Íslenskir fjárfestar hyggjast leggja til um 2,5 milljarða króna til að taka þátt í kaupum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Pt Capital Advisors frá Alaska á farsímafyrirtækinu Nova.

Félagið leggur áherslu á fjárfestingar á norðurslóðum.

Íslendingar eignast þriðjungshlut

Munu íslensku einkafjárfestingarsjóðirnir og lífeyrissjóðir að stórum hluta fjármagna kaupin í gegnum framtakssjóð Íslenskra verðbréfa að því kemur fram í frétt DV um málið.

Eftir er að safna því hlutafé sem íslenskir aðilar munu leggja inn í kaupin, en búist er við að þeir munu eignast um þriðjung í félaginu að óbreyttu.

Björgólfur vildi erlent eignarhald

Eins og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins um málið í síðustu viku staðfesti Björgólfur Thor Björgólfsson, eigandi Novator að félagið hefði fengið meira en 15 milljarða króna fyrir 94% hlut sinn í félaginu. 

Í samtali við Viðskiptablaðið lýsti hann yfir ánægju með að fá inn erlent fé í fyrirtækið, til að koma í veg fyrir hringamyndun og hagsmunaárekstra og sagði það best fyrir bæði viðskiptavini og starfsfólk félagsins að féð kæmi erlendis frá.

Skuldsett yfirtaka

Samkvæmt heimildum DV er búist við að einkafjárfestar verði umsvifameiri en lífeyrissjóðir í endanlegum hluthafahóp íslenskra aðila í Nova, en jafnframt segir þar að ekki sé útilokað að sú fjárfesting verði í einhverjum tilfellum gerð í gegnum Pt Capital Advisors.

Er gert ráð fyrir að kaupendur Nova muni leggja samtals 8 milljarða króna í eigið fé, en afgangurinn, um 7 milljarðar króna verð fjármagnaður með lánsfé sem er búið að tryggja að stærstum hluta frá erlendum banka. Er því um að ræða skuldsetta yfirtöku að hluta, enda hefur Nova alla tíð verið fjármagnað frá grunni með eigið fé.

Liv og Jóakim Hlynur innleysa hagnað af kauprétti

Starfsmenn félagsins eiga 6% hlut í Nova, en þar eru hlutir þeirrar Liv Bergþórsdóttur, forstjóra félagsins, og Jóakims Hlyns Reynissonar, framkvæmdastjóra tæknisviðs, stærstir eða samanlagt 4,6 prósentustig.

Eignuðust þau sína hluti á sínum tíma í samræmi við kaupréttarsamkomulag og selja þau hluta af sínum bréfum í söluferlinu og innleysa töluverðan hagnað.