Það eru ekki einungis erlendir ferðamenn sem eru farnir að auka komur sínar til Íslands, heldur hefur mikil aukning verið í sumarferðalögum Íslendinga til útlanda síðustu tvö ár.

Í sumar fjölgaði utanlandsferðum Íslendinga um 12,5 prósent frá sama tíma í fyrra samkvæmt vefsíðunni Turisti.is. Flestir fóru út í júní, eða nærri 48 þúsund. Samtals flugu meira en 132 þúsund íslenskir farþegar til útlanda frá Keflavík yfir sumarmánuðina þrjá í ár.

Síðast þegar ferðamenn voru svo margir var sumarið 2008, þegar 133.013 Íslendingar fóru um Keflavíkurflugvöll samkvæmt talningu Ferðamálastofu, sem nær aftur til ársins 2004.

Íslendingar hafa hins vegar aldrei ferðast meira en sumarið 2007, en þá fóru rúmlega 151 þúsund farþegar erlendis. Það er 15 prósentum meira en í sumar. Má þó búast við því að metið verði slegið næsta sumar eða árið á eftir.