Domino's á Íslandi á áfram heimsmet í sölu á hvert útibú, samkvæmt nýbirtu uppgjöri Domino´s á Bretlandi, sem á keðjuna hér á landi. Í uppgjörinu segir að metið sé merkilegt í ljósi fámennis hér á landi og fjölda útibúa hér á landi.

Meðalsala á viku í hverjum sölustað Domino‘s á Íslandi 4,5 milljónum króna. Miðað við það má áætla að velta Domino's á Íslandi hafi numið yfir sex milljörðum króna á síðasta ári. Domino's opnaði tvo staði til viðbótar á Íslandi í fyrra og eru þeir því alls 25 í dag.

Þá segir í uppgjörskynningunni að rekstrarhagnaður Domino‘s hér á landi hafi aukist um 8% í fyrra. Starfsfólk félagsins á Íslandi hafi haldið áfram að „brjóta glerþök“ hvað varðar sölu og að íslenski markaðurinn sé einstakur. Þá segir í uppgjörinu að félagið hyggist hefja markaðssetningu til ferðamanna hér á landi á þessu ári.