Svartsýni Íslenskra neytenda á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnulífi um þessar mundir eykst samkvæmt Væntingavísitölu Gallup sem birt var í morgun.

Væntingavísitalan mælist nú 67,9 stig lækkar um 17,9% milli mánaða.

Greining Glitnis segir í Morgunkorni sínu að nú, fjórða mánuðinn í röð mælist vísitalan undir 100 stigum en þegar vísitalan er undir 100 stigum gefi það til fleiri neytendur séu svartsýnir en bjartsýnir.

„Væntingar neytenda hafa dregist hratt saman síðan í fyrrahaust og er væntingavísitalan nú 53% lægri en á sama tíma fyrir ári síðan. Vísitalan hefur aðeins tvisvar mælst lægri en nú en það var í síðustu efnahagslægð sem hagkerfið gekk í gegnum, eða í október og nóvember árið 2001. Allar undirvísitölur væntingavísitölunnar lækka nú á milli mánaða,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Vísitalan fyrir stórkaup lækkar nú um  11% á milli ársfjórðunga og hefur vísitalan lækkað jafnt og þétt frá síðasta sumri, þegar lausafjárkrísan braust út, segir Greining Glitnis.

„Undirvísitölurnar fyrir bifreiðakaup, íbúðakaup og utanlandsferðir lækka allar og eru nú í eða nálægt sögulega lágmarki. Sér í lagi er athyglisvert að þeim sem telja mjög eða frekar líklegt að þeir kaupi bíl næsta hálfa árið fækkar nærri um helming frá síðustu mælingu í mars. Neytendur eru því mun ólíklegri nú en  til að ráðast í kaup á bifreiðum, húsnæði eða utanlandsferðum,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.