Frammistaða Íslands við að innleiða tilskipanir og reglugerðir EES-ríkjanna á réttum tíma er langtum lakari en nokkurs annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu. Innleiðingarhalli tilskipana sýnir það hlutfall tilskipana sem ekki hefur verið tilkynnt innan réttra tímamarka til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Fram kemur á vefsíðu ESA að miðað við stöðuna í nóvember 2013 var innleiðingarhallinn 3,2% sem samsvarar því að 37 tilskipanir voru ekki að fullu innleiddar á réttum tíma. Innleiðingarhallinn í maí 2013, þegar síðasta frammistöðumat var gert, var 2,3% og var þá sá mesti sem verið hafði um árabil. Reglugerðum sem ekki voru innleiddar innan tímamarka á Íslandi stórfjölgaði - eða um 82 frá síðasta frammistöðumati og eru nú 117 talsins. Jafnframt lengist enn sá tími sem Ísland fer fram úr tímamörkum um 1,3 mánuði og er nú 13,1 mánuður að meðaltali.

Í Noregi hefur staðan batnað en stjórnvöld þar fóru áður 5,9 mánuði fram úr tímamörkunum en eru nú komin niður í 5,7 mánuði. Liechtenstein var svo rétt innan við 1% innleiðingarhalla en það eru þau mörk sem halda ber sig innan, að sögn ESA.