Eyðsla Íslendinga erlendis á föstu gengi jókst um tæp 40% á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við í fyrra ef marka má vísbendingar um kortanotkun erlendis. Þetta kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem kom út í síðustu viku.

„Það eru tveir kraftar sem þarna eru að sameinast í þessum mikla vexti. Annars vegar er mikill vöxtur í utanlandsferðum Íslendinga,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Utanlandsferðum Íslendinga um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 15,7% á fyrstu 9 mánuðum ársins miðað við í fyrra.

Jón Bjarki bendir á að ferðamenn miði eyðslu sína á ferðalögum oftar en ekki við verð í sinni heimamynt. „Þannig að menn gera betur við sig í útlöndum í sterku gengi. Ferðirnar verða lengri, fólk fer fínna út að borða, eyðir meiru í ýmiskonar upplifun og kaupir meira í erlendum verslunum. Spegilmyndin af því er að við sjáum útlendingana spara meira við sig í Íslandsferðunum,“ segir Jón Bjarki.

Póstverslun dregur úr veltu verslana

„Hinn þátturinn er að inn í þessa tölu kemur erlend netverslun,“ segir hann. Morgunblaðið greindi nýlega frá því að póstsendingum vegna erlendrar netverslunar hefði fjölgað um 60% á þessu ári. „Það er enn þá gífurlegur vöxtur í pakkasendingum erlendis frá og það flokkast með þessari erlendu veltu. Það endurspeglast að sama skapi í því að velta í innlendum sérverslunum, til dæmis fata- og raftækjaverslunum, er að aukast minna en ella fyrir vikið.“

Þá hefur vöruskiptajöfnuður versnað um 70 milljarða króna síðasta árið miðað við tólf mánuðina þar á undan og er neikvæður um 165,7 milljarða króna samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. „Það er hluti af sömu sögu, við höfum séð einkaneyslutengdan innflutning vera að vaxa allhratt. Þetta er auð­vitað eitthvað sem gerist gjarnan þegar raungengið er tiltölulega hátt,“ segir Jón Bjarki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .