Heildarvelta innlendra greiðslukorta í nóvembermánuði hækkaði um 22,2% milli ára og nam 99,7 milljarða króna. Einkaneysla innanlands hefur aukist mikið á undanförnum mánuðum samanborið við árið á undan. Þetta kemur fram í gögnum Seðlabanka Íslands.

Velta innlendra greiðslukorta í verslunum nam 80 milljarða króna innanlands í mánuðinum, sem er hækkun um 1,2 milljarða milli mánaða. Velta innlendra greiðslukorta í verslunum erlendis nam 17,5 milljarða króna sem er 8 milljarða hærri velta frá fyrra ári. Mikil aukning hefur verið á ferðalögum Íslendinga erlendis í kjölfar bólusetninga og minni takmarkana.

Heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi í nóvember 2021 nam 10,8 milljarða, og er veltan 9,2 milljörðum hærri samanborið við árið á undan.

Samkvæmt greiningu Íslandsbanka benda kortaveltutölur til þess að kórónukreppan sé að baki hjá flestum heimilum og að einkaneyslan sé nú orðin talsvert meiri en hún var fyrir faraldur. Auk þess segir í greiningu bankans að einkaneysluvöxtur í ár nálgist 6% miðað við nýjustu tölur, en bankinn hafði áður spáð 4,8% vexti í einkaneyslu á árinu.