Heildarkostnaður vegna heilbrigðisþjónustu á Íslandi nam 9% af landsframleiðslu árið 2012 sem er minna en meðaltal OECD ríkja sem nemur 9,3%. Heildar eyðsla í heilbrigðisþjónustu á Íslandi var lægri en í öllum öðrum Norðurlöndunum. Á Íslandi borgar ríkið fyrir 80% af heildarkostnaði heilbrigðiskerfisins, en það er hærra en meðaltal OECD ríkja sem nemur 72%.

Mikil lækkun varð á heilbrigðiskostnaði eftir efnahagskreppuna og lækkaði kostnaðurinn bæði árið 2009 og 2010. Útgjöld hafa þó verið að hækka hægt og rólega síðan þá og benda tölur OECD til að útgjöldin 2013 munu vera svipuð og fyrir hrun.

Útgjöld til lyfja hafa lækkað á Íslandi jafnt og í öðrum OECD ríkjum undanfarin þrjú ár. Þetta má útskýra með nýjum stefnum ríkisstjórnarinnar að nota ódýrari eftirlíkingalyf í stað frumlyfja.

Í úttekt OECD kemur einnig fram að lífslíkur á Íslandi sem eru 83,2 ár séu hæstu í heimi á eftir Japan og að kynjamismunur sé minni í lífslíkum á Ísland en í öðrum OECD ríkjum. Einnig hefur hlutfall reykingamanna hér á landi lækkað um 10% á síðustu 10 árum og er Ísland, Svíþjóð og Mexíkó nú þau OECD ríki þar sem fæstir reykja daglega. Þetta er mjög jákvætt fyrir heilbrigðisútgjöld.

Hins vegar hefur tíðni offitu hjá fullorðnum snarhækkað hér í landi frá 12% árið 2002 upp í 21% árið 2012. Þetta hlutfall er lægra en í öðrum OECD löndum eins og Bandaríkjunum en gæti hins vegar haft í för með sér verulega aukningu í útgjöldum til heilbrigðisþjónustu á næstkomandi árum.