Samkvæmt gögnum Seðlabankans nam heildarvelta greiðslukorta í verslunum hér á landi ríflega 89 milljörðum króna í desember síðastliðnum og dróst hún saman um 4,2% í samanburði við desembermánuð ári áður. Lækkunin skýrist fyrst og fremst af margfalt lægri veltu erlendra kreditkorta sem nam 1,5 milljörðum samanborið við 12,4 milljarða árið áður.

Á móti vegur að Íslendingar versluðu meira innanlands en árið áður. Velta innlendra greiðslukorta jókst þannig um 9,4% og nam 83,9 milljörðum króna. Á sama tíma dróst velta innlendra greiðslukorta í erlendum verslunum saman um 37% og nam 9 milljörðum. Aukning í verslun Íslendinga innanlands var tæpum tveimur milljörðum króna meiri en lækkun á erlendri verslun nam. Heildarvelta innlendra greiðslukorta í verslunum, innlendum sem erlendum, nam því 92,9 milljörðum og jókst um 2,1% milli ára.

Heildarfjöldi virkra greiðslukorta var um 459 þúsund í desember og var meðalvelta í innlendum verslunum um 183 þúsund krónur á kort, sem er aukning um 14,2% frá árinu áður þegar meðalvelta var um 160 þúsund á kort og fjöldi virkra korta um 480 þúsund. Þannig standa 4,2% færri kort undir heildarveltu sem jókst um rúm 9,4%. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að í desember mældist tólf mánaða verðbólga 3,6%.

Færslufjöldi í verslunum innanlands dróst saman um 5%, úr um 12,8 milljónum í um 12,2 milljónir. Færslufjöldi á hvert virkt greiðslukort var hins vegar sambærilegur milli ára, yfir 26 færslur á hvert kort að meðaltali. Meðalfærsla Íslendinga í innlendum verslunum nam því 6.884 krónum, sem er um 15% hærra en árið áður þegar meðalfærslan nam 5.980 krónum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Forstjóri Kauphallarinnar telur forsendur til staðar fyrir því að tvöfalda stærð íslenska markaðarins, bæði hvað varðar markaðsvirði sem og fjölda félaga á markaðnum.
  • Kaupfélag Skagfriðinga jók hlutafé sitt í MS um hálfan milljarð í aðdraganda skiptingar félagsins þar sem erlend starfsemi færist í tvö ný félög. Ari Edwald sér tækifæri í skerptum áherslum.
  • Sigríður Ingvarsdóttir, forstjóri NMÍ, er stolt af árangri frumkveðlasetra og vonar að starfi þeirra verði framhaldið eftir lokun miðstöðvarinnar.
  • Nýr forstöðumaður hjá Högum, Sesselía Birgisdóttir, segir frá ferlinum og upplifuninni að snúa heim eftir 10 ár í Svíþjóð þar sem hægt var að gera mun meira stafrænt.
  • Óðinn skrifar um söluna á Íslandsbanka.
  • Greining á áhrifum af hækkun ál-, kísil- og raforkuverðs á íslenskt hagkerfi.
  • Hrafnarnir eru á sínum stað og Týr fjallar um fréttaflutning RÚV af sölu Íslandsbanka.
  • Fjallað um gott gengi Hampiðjunnar á nýliðnu ári.