Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur auglýst eftir umsóknum um túnfiskkvóta Íslands fyrir árið 2009, en hann er um 50 tonn af bláuggatúnfiski. Um er að ræða veiðiheimildir til handa Íslandi samkvæmt samþykkt Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins.

Útgerðir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessum veiðum skulu sækja um veiðiheimildir til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fyrir 31. janúar 2009.

Á síðasta ári var útgerð Eyborgar EA í Hrísey úthlutað kvótanum og var hann veiddur við lögsögumörk Líbýu í Miðjarðarhafi, en líbískir samstarfsaðilar útgerðarinnar önnuðust veiðarnar. Túnfiskurinn var seldur til áframeldis á Möltu. Samkvæmt frétt Fiskifrétta frá þeim tíma veiddust alls 460 bláuggatúnfiskar og var meðalþyngd þeirra 115 kíló.