Dagný Jónsdóttir lögfræðingur, sem skrifaði meistararitgerð um fríverslunarsamninginn milli Íslands og Kína, segir nýjan fríverslunarsamning milli Íslands og Kína vera mun hagstæðari fyrir Íslendinga eins og stendur þegar lýtur að vöruviðskiptum. Íslenskur markaður er mjög lítill í samanburði við önnur ríki sem Kínverjar eiga helst í viðskiptum við.

„Íslendingar fá með samningnum aðgang að stórum vörumarkaði, en ætlað er að millistéttin í Kína telji um 400 milljónir manna. Því má segja að vöruviðskipti séu mikilvægasti hluti fríverslunarsamningsins fyrir Ísland þar sem íslensk fyrirtæki fá tækifæri til að koma vörum sem falla undir samninginn tollfrjálst á markað í Kína. Þegar litið er til hagsmuna Kínverja þá er Ísland í þeirri stöðu að vera í góðum viðskiptatengslum við Evrópusambandið með EES-samningnum. Einnig má ætla að það hafi haft áhrif að Ísland hefur veigamiklu hlutverki að gegna í Norðurskautsráðinu sem er Kínverjum afar mikilvægt í tengslum við flutningsleiðir um Norður-Íshaf.

Ef sú flutningsleið opnast í frekari mæli geta falist tækifæri fyrir Kínverja að flytja hér vörur til framleiðslu sem síðan eru fluttar inn á EES-svæðið og einnig hefur verið rætt um tækifæri Íslands sem umskipunarhöfn fyrir vörur á milli Kína og Evrópu. Ísland getur því virkað sem „ísbrjótur“ fyrir kínverskar vörur inn á markað í Evrópu og kemur það sér vel fyrir viðskipti Kínverja. Ísland er í lykilstöðu til þess að þjóna slíkri starfsemi og því nauðsynlegt að nýta sér það forskot sem Ísland hefur á aðrar þjóðir í þessum efnum þegar sá tími kemur,“ segir Dagný.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.