Niðurstöður Íslendinga í Pisa könnun sem gerð var í fyrra er skelfileg. Niðurstöðurnar benda til þess að frammistaða íslenskra nemenda versnar verulega frá 2009 og sé horft til allra PISA mælinga frá upphafi þá hefur nemendum hrakað sem nemur um hálfu skólaári á síðasta áratug. Námsmatsstofnun kynnti niðurstöðurnar í dag.

Ísland ásamt Svíþjóð er með lökustu frammistöðu allra Norðurlandanna. Verulegur munur er á höfuðborgarsvæði og landsbyggð í öllum greinum og hefur afturförin orðið mest á landsbyggðinni þó svo höfuðborgarsvæðið hafi einnig látið undan síga. Kynjamunur er ekki meiri en áður hefur mælst.

Piltum hefur farið verulega aftur í lesskilningi og stærðfræðilæsi, og eru nú um 30% þeirra á tveimur neðstu þrepum lesskilnings og um 20% á neðstu þrepum stærðfræðilæsis. Frammistaða íslenskra nemenda í náttúrufræðilæsi er sú lakasta af öllum Norðurlöndunum.