Íslenskir gestgjafar fá hærri tekjur en aðrir gestgjafar fyrir að leigja út íbúðir sínar á Airbnb. Að meðaltali fá íslenskir gestgjafar 16.500 dollara eða um 1,6 milljón króna fyrir hverja íbúð í miðbænum.  Heildartekjur gestgjafa sem leigðu út íbúð sína í miðborg Reykjavíkur námu 5,3 milljörðum króna árið 2016. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins á niðurstöðum Dr. Jeroen A. Oskam sem hefur staðið fyrir rannsóknum á framtíðarþróun ferðaþjónustu.

Samkvæmt tölum Oskam græddu íslenskir Airbnb gestgjafar að meðaltali um 3.500 dollurum meira á ári en þeir sem græða mest, sem er í Westminister-hverfinu í Lundúnum. Til samanburðar þá græða gestgjafar í Barcelona 8.600 dollara á ári eða tæplega helmingi minna en íslenskir gestgjafar.

Haft er eftir Oskam í Fréttablaðinu að það sem hafi komið honum mest á óvart er að miðað við stærð Reykjavíkur þá er fjöldi gesta sem nota Airbnb ekki í neinu samræmi við aðrar borgir. „Árið 2015 var 1,1 milljón Airbnb-gesta í Amsterdam en á sama tíma voru Airbnb-gestir um 200 þúsund í Reykjavík. Reykjavík er einn sjötti af stærð Amsterdam,“ segir Oskam.