Á fundi með aðstoðarutanríkisviðkiptaráðherra Kína, Yu Guangzhou, fyrr í vikunni undirritaði Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra viljayfirlýsingu um upphaf fríverslunarviðræðna milli ríkjanna, sem munu hefjast í upphafi árs 2007. Berglind Ásgeirsdóttir, skrifstofustjóri utanríksiráðuneytisins, segir að með fríverslunarsamningi sé ætlunin að afnema tolla og gert sér ráð fyrir því að það nái til bæði vöruviðskipta og þjónustuviðskipta, sem hún segir ekki síður mikilvægt. Slíkur samningur muni skapa íslenskum viðskiptaaðilum og fyrirtækjum gríðarleg tækifæri.

"Þarna munum við geta náð hagkvæmara verði á innflutningi og ætti verð til neytenda að lækka þarafleiðandi. Í þjónustuviðskiptum sjáum við líka margvísleg tækifæri, Íslendingar eru að selja margvíslega þjónustu til Kína og eru til dæmis vöru oft framleiddir í Kína, en hönnunin eða búnaðurinn er íslenskur," segir Berglind.

Hún segir Íslendinga í raun fá forgangsmarkaðsaðgang í Kína. "Tollar hafa verið á bilinu 10-20% og yrðu þeir þá felldir niður. Við myndum þá kaupa meira af vörum beint frá Kína í stað þess að kaupa í gegnum milliliði eins og eitthvað tíðkast nú. Því má kannski líka segja að svona samningur einfaldi allt þetta ferli. Það er með svona samninga eins og alla aðra, að spurningin er hvort viðskiptaaðilarnir noti þetta. Aðalatriðið er að þetta býður upp á gríðarleg tækifæri og er þarna verið að greiða fyrir því að menn geti þróað viðskipti þarna á milli, bæði fyrir þá sem eru nú þegar komnir inn og þá sem þangað stefna," segir Berglind.

Hagkvæmnisathugun leiddi í ljós að fríverslunarsamningur á að vera báðum þjóða til góða, þar sem þjóðirnar selji ólíkar vörur og er því ekki samkeppni í vöruviðskiptum þeirra. Berglind nefnir sjávarafurðir, veiðafæri, tækjabúnað fyrir matvælavinnslu, lyf- og lækningatæki, sem dæmi um markaði sem Íslendinga eru þegar komnir inn á í Kína og hafa verið að vaxa mikið. Útflutningur til Kína hefur aukist mjög mikið að undanförnu, en ekki innflutningur. Á síðasta ári voru fluttar inn vörur fyrir 16 milljarða króna frá Kína, en útflutningur nam 1,69 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Þetta mun vera í fyrsta skipti sem Kína gengur til samninga við Evrópuríki og segir Berglind þennan áfanga því merkilegan í sögulegu samhengi. Hún segir að Ísland hafi á sér sérlega gott orð á alþjóðavettvangi og Kínverjar horfi ekki til stærðar þjóðarinnar. "Ísland er náttúrulega fámennt land, en háþróað og eru því viðskipti milli þessara landa eins og um milljónaþjóð væri að ræða. Í augum Kínverja skiptir því kannski ekki máli hvort við erum 300 þúsund eða þrjár milljónir," segir Berglind.

Á ráðherrafundi EFTA á föstudag var undirritaður samningur milli EFTA og Indlands um framkvæmd hagkvænisathugunar og segir Berglind mjög merkilega hluti vera að gerast í þessu samhengi. "Við erum að horfa í vaxandi mæli til gríðarlega stórra ríkja og ef að svona gengur efir við erum að opna fyrir okkar fyrirtækjum gríðarleg tækifæri."