Íslenska ríkið hefur ákveðið að gefa út skuldabréf að andvirði 750 milljón evra eftir alþjóðlegt skuldabréfaútboð. Það eru jafnvirði 116 milljarða króna á gengi dagsins. Þetta kemur fram í frétt á vef Financial Times.

Töluverð umframeftirspurn var eftir skuldabréfunum en tilboð fyrir meira en 2,1 milljarð evra bárust í bréfið. Lánskjörin eru EURIBOR millibankavextir með 175 punkta álagi og bréfin gilda til sex ára.

Gjaldeyrishöft ekki fyrirstaða

Gjaldeyrishöft og óuppgerð þrotabú gömlu bankanna virðast ekki hafa verið mikil fyrirstaða fyrir erlenda fjárfesta. Ákvörðun Standard & Poor um að breyta horfum íslands úr BBB- í stöðugar virðist hafa haft áhrif. Bætt lánshæfismat kemur til vegna bættra efnahagshorfa, heilbrigðara fjármálakerfis og aukins aðhalds í ríkisfjármálum.

Lánshæfismat Íslands hjá Moody's er Baa3 og BBB hjá Fitch, með stöðugum horfum hjá hvorum um sig. Gjaldeyrishöftin eru þó enn stærsti óvissuþáttur erlendra fjárfesta. „Þar sem mögulegt umfang útflæðis á gjaldeyri er mikið, er of hröð losun gjaldeyrishafta stærsti áhættuþátturinn hvað Ísland varðar að okkar mati," sagði í lánshæfismati Moodys.

Þá hefur ávöxtunarkrafa á skuldabréf íslenskra ríkisins sem eru á gjalddaga árið 2022 lækkað úr 6,2% í 4,3%.