Íslendingar fengu um 55% af öllum hagnaði af olíuvinnslu og sölu en þeir sem fjármagna olíuleitina innan við 7%. Þetta fullyrðir athafnamaðurinn Heiðar Már Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon Energy. Hann var með erindi á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um olíuleitina og hugsanleg áhrif af olíuvinnslu úti fyrir ströndum Íslands ásamt fleirum. Eykon Energy fékk í síðustu viku þriðja og síðasta sérleyfið til olíuleitar á Drekasvæðinu.

Heiðar sagði að samkvæmt þessu geti fjárfesting tengt olíuiðnaðinum numið hundruð milljarða króna og á bilinu 60-100 milljarðar króna skilað sér hingað til lands í formi skatta, gjalda og öðrum leiðum.

Heiðar benti reyndar á að það sé fjarri að peningarnir séu hanan við hornið. Fyrsti fasi olíuverkefnisins, sem felist í rannsóknum á svæðinu, taki 4-8 ár. Að því loknu verði hægt að gera tilraunaboranir.

Þótt efnahagsleg áhrif olíugeirans á íslenskt efnahagslíf sé mikið þá hefur hann ekki neikvæð áhrif á atvinnulífið, sem geti m.a. falist í ruðningsáhrifum og komið öðrum fyrirtækjum illa. Þvert á móti sé tilkoma olíuiðnaðarins viðbót við atvinnulífið.