Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur staðfest reglugerð um útgáfu evrópsks skotvopnaleyfis hérlendis, sem gilda til fimm ára.

Handhöfum slíks leyfis er heimilt að fara með skotvopn sín til veiða eða stunda íþróttaskotfimi á Schengen-svæðinu án þess að þurfa að sækja um sérstakt leyfi til útflutnings vopnsins í hvert sinn.

Þetta er þó aðeins heimilt sé notkun vopnsins leyfð í viðkomandi landi, að dvölinni sé ekki ætlað að standa lengur en þrjá mánuði og að handhafi leyfisins geti framvísað staðfestingu á því að tilgangur fararinnar sé skotveiði eða íþróttaskotfimi.

Schengen-svæðið nær til 24 Evrópuríkja þar sem um það bil 400 milljónir manns búa. Ekki er um að ræða landamæraeftirlit eða vegabréfsskoðun frá Adríahafi til Eystrasalts. Það svæði teygir sig fyrir um 4000 km þar sem lengst er á milli.

Mega flytja vopn til og frá landinu

Handhafi evrópsks skotvopnaleyfis, sem gefið er út á Íslandi, getur, án sérstaks leyfis lögreglustjóra flutt út og síðar inn til landsins aftur þau vopn er tilgreind eru í leyfinu ef dvölin er ekki lengri en þrír mánuðir.

Sama máli gegnir um útlendan handhafa slíks leyfis, að því tilskildu að vopnin og skotfærin séu leyfð hérlendis.

Framsal leyfisins er óheimilt og skal handhafi þess ávallt bera það á sér við notkun tilgreinds vopns erlendis.