Samkvæmt samanburðarathugun á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (European Innovation Scoreboard) var Ísland í 11. sæti af 29 Evrópuþjóðum í fyrra. Ísland var í þriðja sæti á eftir Svíþjóð og Finnlandi í nýsköpun árið 2002.

Í vefriti mennatamálaráðuneytisins kemur fram að breytingin á milli þessara ára skýrist af einhverju leyti af endurskoðun á þeim ælikvörðum sem liggja að baki flokkun landa. Ísland er þó meðal þeirra landa sem mestum framförum taka á þeim mælistikum sem lagðar eru til grundvallar. Mælt er hvað er lagt í nýsköpun (input ? t.d. menntun, fjárfesting í nýsköpun) og það sem út úr því kemur (output ? t.d. nýjar vörur, atvinna í hátæknigreinum, einkaleyfi). Í ljós kemur að á Íslandi er mikið lagt til nýsköpunar en landið stendur veikar á þeim kvörðum sem mæla það sem út kemur.

Sumir halda því fram að það verkvit sem birtist í frumkvöðlastarfsemi og
nýsköpun lærist fyrst og fremst af atvinnuþátttöku og þar hjálpi sú
íslenska hefð að ungmenni vinni með námi og á sumrin. Ekki dugi að
ætla skólum eingöngu að hvetja til nýsköpunar. Hvar sem ástæðurnar liggja þá er ljóst að mikill frumkvöðlaandi ríkir á Íslandi. Samkvæmt alþjóðlegri rannsókn (Global Enterpreneurship Monitor, 2004 - unnin hér á landi af Háskólanum í Reykjavík) var meiri frumkvöðlastarfsemi á Íslandi en í flestum öðrum löndum heims.

Í nýlegri meistararitgerð Svanborgar R. Jónasdóttur (Ný námsgrein verður
til: Nýsköpunarmennt í grunnskólum. Félagsvísindadeild HÍ, 2005) er
nýsköpunarmennt skilgreind sem ,, ...hugmyndavinna barna sem felur í sér
að finna lausnir á þörfum og vandamálum eða að endurbæta það gamla
og gera eitthvað með það." Í ritgerðinni kemur fram að skólaárið 2004-
2005 var nýsköpun kennd sem formleg námsgrein í 10% íslenskra
grunnskóla. Í 35% grunnskóla var nýsköpun kennd sem hluti af öðrum
námsgreinum. Svanborg varpar fram þeirri spurningu hvort æskilegt sé að
gera nýsköpun að skyldu í námskrá en kemst að þeirri niðurstöðu að svo
sé ekki. Nýsköpun verði ekki numin á hefðbundinn hátt í skólum heldur
þurfi hún að byggja á fjölbreyttum vinnubrögðum, samþættingu margra
námsgreina og þekkingu og virkni nemenda segir í vefritinu.