Í fyrsta sinn frá upphafi mælinga fluttu fleiri Íslendingar heim til landsins en frá því á þriðja ársfjórðungi, en það er yfirleitt sá árstími sem flestir Íslendingar flytja út, oft í nám sem byrjar á haustin.

Þá fluttu 1.110 íslenskir ríkisborgarar heim á tímabilinu en 960 fluttu af landi brott á tímabilinu að því er ný Hagsjá Landsbankans fjallar um, en það er sá árstími sem venjulega flestir Íslendingar flytjast búferlum.

Einnig fluttu í fyrsta sinn frá árinu 2012 fleiri erlendir ríkisborgarar af landi brott en til þess á öðrum ársfjórðungi ársins. Metfjöldi erlendra borgara flutti til landsins árið 2017, þegar landsmönnum fjölgaði um 10 þúsund manns, með 8 þúsund innfluttra umfram brottfluttra.

Íslendingar voru jafnframt í meirihluta aðfluttra umfram brottfluttra á öðrum og þriðja ársfjórðungi þessa árs, ef báðir eru lagðir saman, sem ekki hefur gerst oft frá því árinu 2005 þegar innflutningur erlendra ríkisborgara fór að aukast.

Á sama tíma fluttu hins vegar mun færri í heildina hingað til lands umfram brottflutta en síðustu ár, þá vegna mun færri erlendra ríkisborgara sem fluttu til landsins, en samt sem áður náði fjöldi Íslendinga sem sneru aftur heim að vera nægilegur til þess að fleiri fluttu til landsins í heildina en frá því.

Þannig minnkaði umframflutningurinn til landsins úr 1.000 einstaklingum í 25 á öðrum ársfjórðungi og úr 1.500 á þeim þriðja í 560 einstaklinga.

Hins vegar var fjöldi erlendra ríkisborgara sem flutti af landi brott sá mesti á stökum ársfjórðungi frá upphafi árs 2010 á þriðja ársfjórðungi, eða 2.040 einstaklingar. Samt sem áður voru fleiri erlendir ríkisborgarar sem fluttu til landsins eða 2.440 talsins.