Íslendingar senda færri smáskilaboð og tala meira í heimasíma en aðrir Norðurlandabúar að því er fram kemur í skýrslu sem fjarskiptastofnanir á Norðurlöndunum, í Eistlandi og Litháen tóku saman um fjarskiptanotkun á árinu 2012. Einungis Eistar senda færri smáskilaboð en Íslendingar á ári hverju af samanburðarlöndunum.

Á heildina litið er fjarskiptanotkun mjög lík á Norðurlöndunum og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Þrátt fyrir það má þó víða sjá einhvern mun á notkun og þróun einstakra þátta. Íslendingar eru fastheldnastir Norðurlandabúa á heimasímann en 45% þeirra eru með fastlínuáskrift. Finnar eru með fæstar fastlínuáskriftir af samanburðarlöndunum en einungis 16% þeirra eru með slíka áskrift.

Fastlínuáskriftum hefur fækkað í öllum löndunum síðustu ár en þó hægar á Íslandi en í öðrum löndum. Til að mynda voru Svíar með flestar fastlínuáskriftir miðað við höfðatölu árið 2007 og Íslendingar þá með þriðju flestu áskriftirnar. Voru þá 59% Svía með fastlínuáskrif og 49% Íslendinga en Svíarnir eru nú komnir niður í 44%.

Nánar er fjallað um fjarskiptanotkun í Viðskiptablaðinu. Áskriftendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð .