Fjárfestingar Íslendinga í Danmörku samtals námu rúmum 147 milljörðum króna á árunum 2004-2005, samkvæmt upplýsingum greiningardeildar Glitnis.

?Aðallega er um að ræða fjárfestingar í fyrirtækjum og fasteignum tengdum þeim. Sem dæmi má nefna kaup KB banka á danska bankanum FIH, kaup Íslendinga á stórverslununum Magasin Du Nord og Illum ásamt ýmsum fasteignafélögum," segir Glitnir.

Bankinn segir að ofangreindar fjárfestingar hafi gert íslenskt efnahagslíf samofnara dönsku efnahagslífi en áður var en talsverður gangur hefur verið í dönsku hagkerfi undanfarið.

?Nú er því hins vegar spáð að úr vextinum dragi. Danskir sérfræðingar reikna með 2,7% hagvexti í ár og 1,9% árið 2007 eftir 3,1% vöxt í fyrra. Verðbólga hefur verið skapleg eða rétt undir 2% og afgangur af viðskiptum við útlönd upp á um 3% af landsframleiðslu," segir greiningardeildin.

Greiningardeild Glitnis telur mestu áskorun í dönsku efnahagslífi um þessar mundir vera að anna eftirspurn eftir vinnuafli og koma í veg fyrir að hagkerfið ofhitni. Atvinnuleysi mældist 4,5% í júní og hafði ekki mælst eins lítið síðan 1974.

?Skortur á vinnuafli kemur til með að hækka laun um 3,8% á þessu ári samkvæmt spám sérfræðinga. Ástæðan fyrir því að laun hækka ekki meira er sú að mikilli eftirspurn eftir vinnuafli er mætt með innflutningi á fólki frá Austur-Evrópu. Þeir starfsmenn þiggja lægri laun en Danir og kemur það í veg fyrir að launakostnaður fari úr böndunum," segir Glitnir.

?Miklar verðhækkanir fasteigna vekja ugg margra. Fasteignaverð hækkaði um 24% á ársgrundvelli á fyrsta ársfjórðungi. Nú er búist við því að á þessu hægi snarlega. Útlán til fasteignakaupa drógust saman á fyrri helmingi þessa árs frá sama tíma í fyrra. Einnig er nú meira framboð af eignum í sölu en þeim hafði fjölgað um þriðjung frá byrjun ársins þar til í maí. Þetta bendir til þess að fasteignaeigendur hafi trú á að íbúðaverð hafi nú náð hámarki."