Leikjaniðurröðunin fyrir næsta tímabil í Ensku deildinni var gerð opinber í síðustu viku. Við það hófu ferðaskrifstofur að selja ferðir á leiki. „Við auglýstum fyrstu ferðirnar um síðustu helgi og munum klára að setja inn allar ferðirnar fyrir áramót næstu helgi,“ segir Sigurður Sverrisson hjá Premierferðum.

Hann finnur fyrir miklum áhuga á ferðum á leiki enda sé mikil uppsöfnuð ferðaþörf eftir faraldurinn. „Við leggjum áherslu á að bjóða upp á góð sæti, þá fær fólk betri upplifun.“ Hann segir flókið að selja á leiki í haust, sérstaklega vegna HM í Katar. „Þetta er stuttur tími, frá miðjum september fram í miðjan nóvember. Jafnframt þurfum við að staðfesta sætin vegna hópferða með miklum fyrirvara.“

Mikið álag á flugvöllum

Nokkuð hefur verið um frestanir og afbókanir á flugferðum í Bretlandi að undanförnu og flugfélög þurft að skera niður áætlanir sínar. „Allir flugvellir eru að bugast undan álagi og vantar starfsfólk.“ Hann segir mikla umferð á Manchester-flugvelli, sem er fjölfarnasti flugvöllur Bretlands á eftir Gatwick og Heathrow. „Það sem virðist vera mesta vandamálið hér á Manchester-flugvelli er að almenn þjónusta eins og öryggisleit og innritun á töskum er ekki að virka sem skyldi.“

Sigurður segir að Brexit hafi haft mikil áhrif á mannekluna á flugvöllum í Bretlandi. „Breskt efnahagslíf hefur verið keyrt áfram af erlendu vinnuafli, eins og víða annars staðar. Þá á ég ekki einungis við flugþjónustu, heldur líka veitingastaði, hótel, landbúnað og alls kyns framleiðslu. Fólk fór til síns heima í faraldrinum og hefur að miklu leyti ekki komið aftur, þar sem það er erfiðara að fá atvinnuleyfi og svo framvegis í kjölfar Brexit.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.