Þórir Guðmundsson, deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík, segir að Íslendingar gætu auðveldlega tekið á móti mun fleiri flóttamönnum en stjórnvöld áætli. Það sé hins vegar ekki Rauða krossins að ákveða töluna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Ríkisstjórnin áformar að taka á móti fimmtíu flóttamönnum á þessu og næsta ári. „Ég myndi hiklaust segja að ef við lítum á næstu tvö ár þá ættum við að taka á móti hundruðum, ekki eitt eða tvö hundruð, heldur miklu fleirum. Það er tala sem við ráðum mjög vel við,“ segir Þórir.

Fjölmargir Íslendingar hafa nú boðið fram aðstoð sína á Facebook þar sem stofnaður hefur verið sérstakur hópur til stuðnings flóttamönnum frá Sýrlandi. Þar býður fólk fram margvíslega aðstoð, allt frá húsnæðishjálp til þess að gefa fólki föt og mat. Um 8.500 Íslendingar hafa skráð sig á síðuna þegar þetta er skrifað.

Þórir segir það vera mikilvægast að fólkið sem komi til Íslands komist í skjól fjarri styrjaldarsvæðum. „Um leið og fólkið er komið í skjól þarf það að finna fyrir því að það sé velkomið.“