Ísland og Noregur hafa gerst aðilar að loftferðasamningi Evrópusambandsins og Bandaríkjanna sem skrifað var undir í apríl 2007 og tók gildi vorið 2008.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samgönguráðuneytinu en samningurinn veitir flugfélögum í löndunum tveimur aukinn rétt til farþega- og fraktflugs milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Samningurinn er gjarnan þekktur undir nafninu „open skies“ samningurinn.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skrifaði í gær undir samninginn í Brussel, fyrir hönd Íslands ásamt fulltrúum Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Undirbúningur vegna aðildar Íslands að samningnum hefur farið fram í utanríkisráðuneytinu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Flugfélög á Íslandi og Noregi öðlast með samningnum sama rétt og félög í aðildarríkjum Evrópusambandsins til farþega- og fraktflugs milli Evrópu og Bandaríkjanna. Er þeim heimilt að fljúga milli hvaða borga sem er í Evrópu og í Bandaríkjunum. Þá veitir samningurinn aukna möguleika á samstarfi milli flugfélaga beggja vegna Atlantshafsins svo sem til samvinnu um flugleiðir og leigu flugvéla svo og til eignarhalds evrópskra félaga í Bandaríkjunum og öfugt.