Framtíðarsýn danska fyrirtækisins MyC4 er metnaðarfull í meira lagi en fyrirtækið ætlar sé að binda endi á fátækt í heiminum.  Það verður ekki gert gegnum þróunaraðstoð og styrki heldur einfaldlega með ábatasömum viðskiptum.

MyC4 vefurinn var opnaður í maí 2007 en undirbúningur að stofnun fyrirtækisins tók nokkur ár.

,,MyC4 er vettvangur á netinu sem tengist saman fólk og fjármagn" segir Bahare Haghshenas kynningarstjóri fyrirtækisins.  Hún var stödd hér á landi í síðustu viku til að kynna starfsemi fyrirtækisins og ræða við hugsanlega þátttakendur í ráðgjafaráði MyC4 fyrir Ísland.

Bahare segir rekstur fyrirtækisins ganga út á að koma á vettvangi þar sem fólki um allan heim gefst kostur á að lána litlum og meðalstórum fyrirtækjum í Afríku fjármuni á hagstæðum kjörum.

Þannig geti einstaklingar haft bein áhrif á stuðning sinn við lítil fyrirtæki og styrkt innviði samfélagsins um leið.

Einfalt lánafyrirkomulag

Lánveitandi getur verið einstaklingur, sjóður, hópur fólks eða fyrirtæki.

,,Lánveitandinn fer inn á vef MyC4 (www.myc4.com) og kynnir sér hvaða fjárfestingakostir eru í boði.  Þar er einnig hægt að nálgast allar nauðsynlegar upplýsingar um lánsumsækjendur, þ.e. fyrirtækin, og rekstur þeirra."

Þau fyrirtæki sem birtast fjárfestum á MyC4 vefnum hafa gengið í gegnum strangt ferli áður en þau eru samþykkt hjá samstarfsaðilum MyC4 víðsvegar um Afríku. Bahare segir fyrirtækin vera í mjög fjölbreyttri starfsemi, t.d. í verslun, hágreiðslu, sjómennsku og margvíslegri framleiðslu.

Í dag hefur MyC4 milligöngu um lánastarfsemi í þremur löndum í Afríku, Kenýa, Úganda og Fílabeinaströndinni.  Bahare segir næst á dagskrá að hefja starfssemi í Rwanda, Suður-Afríku og Ghana.

Á þeim 11 mánuðum sem MyC4 hefur starfað hafa þeir haft milligöngu um lán fyrir rúmlega 200 milljónir króna og lánveitendur eru um 3.500 frá 53 löndum.  Það gerir að meðaltali um 58.000 kr. Á lánveitanda en rúmlega 1.000 fyrirtæki hafa fengið lán.

Starfsemi undirbúin á Íslandi

MyC4 stefnir að því að setja upp starfsstöðvar í hverju landi fyrir sig í samvinnu við innlenda aðila.

,,Við byrjum á því að setja upp ráðgjafaráð í hverju landi fyrir sig sem vinnur að því hvernig móta skuli stefnuna og kynna hana í hverju landi."

Bahare segir viðtökurnar hér á landi hafi verið góðar og viðmælendur þeirra hafi verið mjög spenntir fyrir hugmyndinni. Hún segir stefnuna setta á að kynna starfsemi MyC4 á þessu ári á Íslandi, Svíþjóð, Hollandi og Bretlandi.

,,Við erum að vinna að því að gera Ísland að fyrsta landinu í heiminum þar sem öllum þjóðfélagsþegnum gefst kostur á að styðja smáfyrirtæki í Afríku með því að lána þeim pening og byggja upp viðskiptagrunn þeirra.  Okkur fannst skemmtilegt að byrja hér á Íslandi sem er einhvern vegin eins langt frá Afríku og hugsast getur fyrir flest fólk."