Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, hafði frumkvæði að því að senda hingað til lands norska sendinefnd til að kynna sér stöðu efnahagsmála.

Stoltenberg bauð þetta í samtali við Geir H. Haarde forsætisráðherra um helgina, segir Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður ráðherrans.

Fullyrt hefur verið í norskum fjölmiðlum í dag að Íslendingar hafi beðið Norðmenn um aðstoð en Gréta segist aðspurð ekki geta staðfest það.

Íslensk stjórnvöld hafi með öðrum orðum ekki óskað eftir aðstoð Norðmanna vegna efnahagsþrenginganna.

Von er á norsku sendinefndinni síðdegis. Í henni eru fulltrúar frá norska fjármálaráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og seðlabankanum. Með í för er einnig fulltrúi frá sænska fjármálaráðuneytinu.

Á vef norska stjórnarráðsins segir að nefndin muni meðal annars kanna þörf Íslendingar fyrir aðstoð.